„Við tyggðum okkur netfangið Mogginn-punktur-com. Ekki leið á löngu þar til við fengum reiðilegt símtal frá Árvakri þar sem við vorum kallaðir á fund með einhverjum yfirmanni og lögfræðingi og okkur hótað öllu illu, dómsmálum og skaðabótakröfum. Morgunblaðið ætti Mogga-nafnið og þetta væri því gróft brot,“ segir Stefán á Facebook-síðu sinni.
Hann segir að hópurinn hafi bent á að Árvakur væri vissulega með skráð vörumerkið Morgunblaðið, en öðru máli gilti um Mogga-heitið.
„Þetta taldi lögfræðingurinn engu máli skipta, þar sem blaðið ætti hefðarrétt á þessu gælunafni. Nema hvað að Morgunblaðið hafði alltaf tekið sig svo alvarlega að það notaði aldrei þetta Mogga-nafn. Eina dæmið sem lögfræðingar blaðsins gátu dregið fram var að um nokkurra ára skeið höfðu „Myndasögur Moggans“ birst á barnasíðum blaðsins. Það fannst okkur nú frekar rýr grunnur að hefðarrétti og veikt efni í dómsmál,“ segir Stefán.
Að lokum fór það svo að hópurinn nennti ekki að standa í þjarki og ákvað því að skipta um nafn.
„Ekki liðu nema örfáir dagar þar til að Morgunblaðið tilkynnti um opnun „Moggabúðarinnar“ þar sem hægt var að kaupa kaffimál og derhúfu með Morgunblaðsmerkinu ef ég man rétt. Það virtist nokkuð augljóst að lögfræðideildin hafði gefið út fyrirskipun um að treysta eignarhald félagsins á Mogganafninu betur í sessi. Og núna er Mogginn ekki lengur feiminn við að kalla sig Mogga,“ segir Stefán en í dag var greint frá því að Mogginn, nýtt app Morgunblaðsins og mbl.is, væri komið í loftið.