Franski leikarinn Gerard Depardieu svarar nú fyrir sakir hjá dómstólum, en hann er sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur konum við töku kvikmyndarinnar The Green Shutter árið 2021. Depardieu segist saklaus og rökstyður þá fullyrðingu sína með óvenjulegum hætti.
„Ég er ekki að fara að skemmta mér neitt verandi 76 ára gamall og 130 kíló. Ég er nógu vansæll fyrir. Ég er ekki að fara snerta rassinn á nokkrum manni, hvorki á tökustað né annars staðar.“
Depardieu segir að mannorðið hafi verið haft af honum í fréttaflutningi síðustu ára. Fólk haldi að hann sé algjört ógeð. Önnur konan sem kærði hann er 54 ára sviðsmyndahönnuður en hún segir leikarann hafa káfað á sér.
Depardieu segir það af og frá. Hann muni ekkert eftir því að hafa snert þessa konu yfir höfuð, hvað þá káfað á henni. Mögulega hafi hann tekið um mjaðmir hennar eitt sinn þegar hann var að verja sjálfan sig frá falli. Saksóknari gekk þó á leikarann og benti á að vitni hefði lýst því svo að Depardieu hefði króað sviðsmyndahönnuðinn af með því að klemma hana milli fóta sinna. Leikarinn segir þetta ósatt enda „myndi ég aldrei setja neitt milli læra minna.“
Hann gengst þó við því að vera ruddalegur í framkomu, en það sé eitthvað sem hann gerir við alla óháð kyni. „Ég ráðskast með fólk, ég ögra. Það er dónaskapur að ögra en ég vil ekki græta neinn. Ég hef ekkert unnið síðustu þrjú árin. Ég held að fjölmiðlar hafi misnotað sér þetta mál.“
Leikarinn telur sig þolanda metoo-hreyfingarinnar sem hafi farið offörum. „Femínísk hreyfing sem verður að skelfingu“.
Depardieu svarar þarna fyrir meinta kynferðislega áreitni, en hann hefur eins verið ákærður í öðru máli fyrir að hafa nauðgað leikkonu og er eins grunaður um skattsvik og peningaþvætti.