Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Katrín hefur getið sér gott orð á samfélagsmiðlum fyrir að deila sparnaðarráðum, hvernig hún kaupir í matinn fyrir fjögurra manna fjölskyldu og fleira. Hún heldur úti YouTube-síðu en er einnig virk í Facebook-hópum eins og Sparnaðartips en nýlega stofnaði hún nýjan hóp: Meira með minna, og eru strax komnir rúmlega sex þúsund meðlimir.
Katrín hefur lengi haft áhuga á sparnaði og að nýta hluti til hins ýtrasta, finna leiðir til að spara og ekki lifa umfram það sem hún getur. Þegar hún og maðurinn hennar byrjuðu að búa keyptu þau húsgögn í Góða hirðinum. Þegar þau áttu von á fyrsta barninu fengu þau margt gefins, í stað þess að fara að kaupa allt það nýjasta og flottasta.
Það er ýmislegt sem Katrín gerir ekki sem mörgum þykir kannski lítið mál, eins og að kaupa hluti á raðgreiðslu. Hún segir að hún myndi frekar handþvo heldur en að kaupa þvottavél á raðgreiðslu. Eina sem hún tekur lán fyrir er húsnæði. „Og ef að bíllinn okkar myndi eyðileggjast og ég þyrfti öruggan bíl, okkar og barnanna vegna, þá kannski. En það er léleg fjárfesting,“ segir hún.
Katrín lærði af eigin mistökum. „Ég tók alveg raðgreiðslur þegar ég var yngri,“ segir hún og bætir við að hún hafi til dæmis keypt síma á raðgreiðslu og stundum hafi síminn eyðilagst og hún var þá enn að borga af ónýtum síma.
„Ég veit alveg hvernig þessi padda er, að finnast maður verða að fá þennan síma og þetta og hitt. Þú horfir á eitthvað og þú verður að taka þetta, en við þurfum að læra að ganga með þessu, [leyfa tilfinningunni að fara í gegnum okkur] og leyfa þessu að fara,“ segir Katrín.
„Við þurfum alveg að læra þetta, að gera smá áskorun, prófa að kaupa ekki nema það sé alveg búið eða ónýtt, það þarf ekki að vera fyrir allt, heldur eitthvað eins og förðunarvörur, snyrtivörur og raftæki.“
Katrín mælir með Barnaloppunni fyrir barnaföt og heldur sig frá dýrum verslunum. „Ég geng ekki einu sinni inn í dýrar búðir því ég vil ekki freistast,“ segir hún.
Katrín hefur verið dugleg að gera verðsamanburð á verslunum og gerði nýlega verðsamanburð á Bónus og Prís. Aðspurð hvar henni finnst hagstæðast að versla segir hún hentugleika líka hafa áhrif.
„Fyrir mig þá fer ég oftast í Bónus því það er svo nálægt mér […] en ég er búin að gera YouTube myndband þar sem ég gerði verðkönnun og tilraun og það er ódýrara í Prís. Mér finnst það skipta líka máli hvar fólk er staðsett. Ef þú ert nálægt Prís myndi ég fara í Prís, og svo geturðu farið niður rampinn í Bónus ef þig vantar eitthvað þar sem þú fannst ekki í Prís.“
„Costco er snilld fyrir margt en það verður að vera listi,“ segir Katrín.
„Ég fer 1-2 sinnum á ári í Costco og er með lista í símanum mínum yfir þá hluti sem ég kaupi þar. Ég athuga samt alltaf hvort verðið hefur hækkað. Ég er með langan lista,“ segir hún og nefnir nokkrar vörur sem hún kaupir yfirleitt.
„Ég er að fara að kaupa þriðju stóru kókosolíuna, hef keypt síðan það opnaði. Ég kaupi baguette brauðin, tortillurnar, kjúklingabaunir í dós, nýrnabaunir í dós. En ekki kaupa það sem þú ert ekki að fara að nota. Ef þú notar aldrei kjúklingabaunir, ekki kaupa kassa af kjúklingabaunum.“
Katrín fer mikið betur yfir þetta allt saman í spilaranum hér að ofan. Það er einnig hægt að hlusta á Spotify.
Horfðu á myndbönd Katrínar á YouTube.