fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Fókus

„Held að ég hafi aldrei verið jafn nálægt því á ævinni að fá taugaáfall“

Fókus
Þriðjudaginn 25. mars 2025 09:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Viljar Hallgrímsson segist hafa fengið kvíðakast fyrstu dagana á 13 mánaða ferðalagi sínu á mótorhjóli yfir alla Ameríku. Eiríkur, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist breyttur eftir ferðina, þar sem hann meðal annars þurfti að flýja skotárás í Mexíkó:

„Ég var búinn að ákveða að þefa uppi aðeins erfiðari leið, til þess að vera sem mest úr alfaraleið. Ég hef líklega bara verið um 5% af tímanum í Bandaríkjunum á malbiki. Ég hélt að ég væri mjög vel undirbúinn og var búinn að sjá þetta allt vel fyrir mér. En ég komst fljótt að því að ég hafði ekki hugsað hlutina nógu vel og ég held að ég hafi aldrei verið jafn nálægt því á ævinni að fá taugaáfall eins og fyrstu dagana í þessari ferð. Ég var búinn að plana þetta svo lengi, en svo þegar ég var kominn í aðstæðurnar varð þetta bara yfirþyrmandi og stórt og allt virkaði erfitt. Ég átti að vera að upplifa drauminn, en fannst þetta bara allt glatað fyrstu dagana. Ég fékk eiginlega bara kvíðakast í fyrsta sinn á ævinni. Þetta virkaði allt í einu allt saman heimskulegt, stórt og óviðráðanlegt. Ef ég hefði fengið einhvers konar,,way out” þarna, þá hefði ég örugglega bara tekið því og farið aftur heim,” segir Eiríkur, sem segir að eftir að hann hafi heyrt í vinum sínum og fjölskyldu hafi hann náð að endurstilla á sér hausinn:

„Eftir að hafa rætt almennilega við vini og fjölskyldu náði ég að skipta um takt og hætta að stressa mig svona mikið á að halda fullkomlega plani. Ferðalagið byrjaði eiginlega fyrir alvöru eftir að ég sleppti tökunum og náði að slaka á og hætta að ofhugsa. Það tók smá tíma, en smátt og smátt fór ég að leyfa þessu að vera í flæði og hætta að reyna að stýra útkomunni of mikið.”

Ég er með byssu og skóflu

Eiríkur gisti mest í tjaldi þegar hann var á ferðalaginu yfir Bandaríkin. Hann segir að það hafi verið skrýtið þegar hann sá fyrst skilti þar sem stóð að eigandi landsins ætti byssu og skóflu:

„Ég reyndi alltaf að finna næturstað sem var fyrir utan alfaraleið og helst við á eða vatn. Oft var þetta „private property“ og maður hefur heyrt sögur af Bandaríkjunum og að það sé ekki vel séð að vera að vafra á landareignum óboðinn. Ég man eftir því þegar ég vaknaði einn morguninn eftir að hafa fundið mér gististað eftir myrkur í skógi í Vestur- Virginíu. Morguninn eftir þegar ég fór í göngutúr um svæðið áttaði ég mig á því að ég var ekki jafnmikið úr alfaraleið og ég hélt. Það voru skilti með reglulegu millibili sem gáfu til kynna að óviðkomandi aðgangur væri stranglega bannaður. Ég áttaði mig á því að ég ætti líklega að drífa mig í burtu þegar ég sá fyrstu skiltin sem stóð á: „I have a gun and a shovel.“ Ég áttaði mig ekki alveg strax á því hvað átt væri við með skóflunni, en um leið og ég fattaði það dreif ég mig í burtu!”

Eiríkur segist hafa kynnst Bandaríkjunum á algjörlega nýjan hátt með því að hjóla í gegnum allt landið og velja fáfarna vegi:

„Það fyrsta sem ég fattaði var hvað Bandaríkin eru stór. Það er allt stórt í Bandaríkjunum. Þegar maður er svo kominn niður í Biblíubeltið fer maður að sjá hluti sem eru bara eins og beint úr bíómyndum. Bæði fólkið, stemmningin og umhverfið,” segir Eiríkur, sem fer í þættinum yfir eitt eftirminnilegasta kvöldið á þessum slóðum:

„Það sprakk dekk á hjólinu mínu í Missisippi, rétt hjá stórum búgarði. Það var að koma myrkur og því ekkert annað að gera en að banka upp á hjá fólkinu á búgarðinum og biðja um ljós til að geta skipt um dekk. En það endaði með því að ég borðaði hjá þeim og gisti yfir nóttina. Í kvöldmatinn var þvottabjarnakjöt, sem þau sögðu að væri eftir „roadkill“. Hvort sem það er satt eða ekki var sest niður, haldist í hendur og farið með borðbæn fyrir matinn og ég fékk alvöru,,southern hospitality”. Ég gisti þarna yfir nóttina og var með þeim allan næsta dag og fékk sýn inn í líf þeirra. Þau vildu meina að það hefði verið ætlun guðs að sprengja dekkið á hjólinu mínu og að það væri ekki tilviljun að ég hefði bankað upp á og sögðust ætla að biðja fyrir mér og ferðalaginu mínu þegar ég kvaddi þau og þau eru enn í sambandi við mig.“

Sjaldan orðið jafn hræddur

Í Mexíkó lenti Eiríkur í atviki sem hann segir vera eina skiptið á öllu þessu langa ferðalagi þar sem hann raunverulega varð hræddur um líf sitt:

„Ég hafði verið á flakki með öðrum strák sem var líka að ferðast um á mótorhjóli og við höfðum verið að kanna alls konar svæði í Mexíkó og vorum kannski orðnir full öruggir með okkur, þó að við vissum að það væru þarna svæði sem hefði kannski verið sniðugast að láta eiga sig. En þarna vorum við í Sierra Gorda-fjallahéraðinu eftir myrkur og vorum að gera okkur klára fyrir að gista í tjaldi yfir nóttina. Það var komið algjört niðamyrkur en allt í einu sjáum við höfuðljós í fjarska og áttuðum okkur á því að það væri best að stoppa öll hljóð og slökkva á ljósunum okkar. En þá höfðu þessir aðilar þegar séð okkur og áður en við vissum af var byrjað að skjóta úr byssum allt í kringum okkur. Ég hef sjaldan orðið jafnhræddur og adrenalínið skaust út í líkamann. Við hentum því sem við gátum af dótinu okkar á hjólin og brunuðum af stað. En af því að það var niðamyrkur var erfitt að rata og ég held að ég hafi dottið 5 sinnum af mótorhjólinu á leiðinni upp á aðalveginn,” segir Eiríkur, sem segir að ef þessir aðilar hefðu viljað drepa þá félagana hefðu þeir líklega gert það.

Eiríkur hafði áður heyrt af því að einstaklingar á vegum glæpagengja eigi reglulega leið um svæðið, í þeim erindum að smygla fíkniefnum á milli Mexíkó og Bandaríkjanna.

„Við vissum af því að það gætu verið menn úr glæpagengjum þarna sem eru að vinna með og smygla fíkniefnum. Þegar við fórum að skoða þetta betur daginn eftir komumst við að því að þetta hafa líklega verið viðvörunarskot til að fæla okkur í burtu. Það var verið að láta okkur vita að við mættum ekki tjalda þarna. En það að láta skjóta úr byssum allt í kringum sig er lífsreynsla sem ég held að flestir vilji sleppa við að upplifa.”

Forréttindapési

Ferðalög eru ástríða hjá Eiríki og hann á og rekur Two Wheels Travel, sem er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í mótorhjóla- og reiðhjólaferðum. Hann segir þetta ferðalag hafa verið ótrúlega lífsreynslu sem hafi breytt sér og að mörgu leyti mótað hann á nýjan hátt:

„Ég veit enn betur núna að ég get verið öflugur í krefjandi aðstæðum og kann að eiga við alls kyns aðstæður. Það er ekki margt sem kemur mér úr jafnvægi eftir að hafa farið í gegnum alls konar aðstæður og tilfinningar og ég horfi öðrum augum á hversdagslífið hérna heima og er þakklátur fyrir það sem ég hef. Maður á ekki að vera að pirra sig á ómerkilegum og smávægilegum hlutum. Ég sé mig sem algjöran forréttindapésa að hafa fæðst á Íslandi og hafa fengið tækifæri til að gera allt það sem ég hef gert.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Eirík og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fleiri miðum bætt við
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Þeir finna að þeir eru meira en bara glæpamenn“

„Þeir finna að þeir eru meira en bara glæpamenn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var bara átján ára og ég er allt önnur manneskja í dag en ég var fyrir ári síðan“

„Ég var bara átján ára og ég er allt önnur manneskja í dag en ég var fyrir ári síðan“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Arkitekt harmar nýjar breytingar hjá Eymundsson á Skólavörðustíg – „Það er búið að loka þetta alveg af“

Arkitekt harmar nýjar breytingar hjá Eymundsson á Skólavörðustíg – „Það er búið að loka þetta alveg af“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sóldís Vala: Lærði að standa með sjálfri sér

Sóldís Vala: Lærði að standa með sjálfri sér