„Það eru allir búnir að reyna sitt, pabbi, mamma, börnin, læknar, prestar, lögfræðingar, lögregla og það virkar ekkert á þá – það eina sem þú getur snert þá með er kærleikur.”
segir Tolli Morthens sem er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta hlaðvarpsþættinum af Einmitt. Tolli hefur síðustu tvo áratugi tileinkað líf sitt vinnu með föngum bæði í afplánun og þegar út er komið. Ásmundur Einar Daðason þáverandi ráðherra leitaði til Tolla og fól honum að fara fyrir stýrihóp í málaflokknum. Hópurinn vann í tvö ár og skilaði skýrslu árið 2022. Verkefnið var að bæta félagsleg kjör þeirra sem eru að koma út úr fangelsunum. Niðurstaðan var að byrja að vinna inn í fangelsunum en ekki taka bara á móti fyrrum föngunum við hliðið. Í framhaldi af því stofnaði Tolli Bataakademíuna, Batahús og Góðgerðafélagið Bata.
Það er ljóst þeim sem hlusta á Tolla þegar hann talar um þessa vinnu að hann brennur fyrir málaflokkinn.
„Við höfum þróað þessa vinnu sem við erum með í fangelsunum frá ári til árs og við höfum þróað hana með nýjum hugmyndum og nýrri reynslu. Fyrst fyrir tveimur áratugum fer ég inn í fangelsin með hugleiðsluna, í framhaldi fórum við með jóga þangað inn. Núna í kringum COVID var svo innleidd öndunarvinna undir handleiðslu Bergsteins Jónssonar þannig að vinnan er í stöðugri þróun.“
Segir Tolli þegar hann er spurður um vinnuna sem slíka.
„Þessi vinna bræðir þennan tilfinningafrera sem menn eru fastir í og þeir finna að þeir eru meira en bara glæpamenn.“
„Ég hef lært það að þú getur ekki snert við þessum mönnum með öðru en virðingu, kærleik og jafningja nálgun,” segir Tolli.
Af hverju?
„Vegna þess að öll fræði sýna fram á það að öll eiga sér sögu um áföll í æsku sem verður að fíknisjúkdóm – leitað sér skjóls í fíkniefnum til að deyfa óbærilega tilveru – það slær samfélagið og samfélagið slær einstaklinginn og þar upphefst hringferð sem verður að rjúfa en ekki viðhalda.“
Þannig er Tolli sannfærður um það að þeim takist að stöðva hringflæði einstaklinganna milli samfélags og afplánunar.
Þá segir Tolli líka frá því í samtalinu hvernig Góðgerðafélagið Bati heldur úti starfsemi þar sem hópurinn heldur áfram að vinna með skjólstæðingum sínum. Þar er „svettið” stór hluti sem er athöfn frá indíánum í Ameríku sem er blanda af sjálfsvinnu, bænagjörð og valdeflingu sem á sér árhundruða gamlan grunn sem tengir einstaklinga sem taka þátt í henni betur við sjálfið í sér. Þá er ótalið verkefnið „Sollusjóður” sem er hliðarverkefni Bata Góðgerðafélagsins. Í Sollusjóð geta íbúar Batahússins sótt styrk til að geta greitt fyrir þjónustu hjá sálfræðingum, fíknifræðingum, fjölskyldufræðingum og öðrum sálmeðferðaraðilum. Einnig er hægt að sækja um styrk til að komast í sjúkraþjálfun, til tannlæknis eða til að sækja nám eða námskeið.
„Maður fer að uppgötva það betur og betur á þessari göngu að hún tekur ekki enda, þetta er bara leiðin sjálf. Vegurinn er leiðin. Það gerir lífið svo innihaldsríkt og fallegt. Eins og ég segi stundum ég hef aldrei málað misheppnaða mynd. Ekki að dæma sig of hart fyrir það sem veldur manni þjáningu.“
Þannig nefnir Tolli að það sé gott að muna goðsögnina um Lótus blómið „engin drulla, enginn Lótus.“
„Fangelsi þarf að vera staður þar sem fólk fær hjálp til að grípa sjálft sig.“
Þá berst tal þeirra að áformum um byggingu nýs fangelsis við Litla Hraun. Í umræðunni um það virðist eingöngu rætt um hæð veggjanna í kringum það og sitt sýnist hverjum.
„Múrarnir eru ekki leið til bata. Eina leiðin til að sigra myrkrið er með miklu ljósi”, segir Tolli. „Við búum við einstakt tækifæri á Ísland að byggja fangelsi sem snýst um það að bæta einstaklinginn með það í huga að hann komi ekki til baka. Háir veggir og þykkar hurðir búa ekki til öryggi. Kærleikur og virðing og framboð af einhverri manneskjulegri uppbyggingu býr til öryggi.“
Að lokum spyr Einar Tolla hvað fái hann til að láta til sín taka í áratugi fyrir þennan flókna og oft erfiða málaflokk.
„Ef þú vilt að heimurinn verði betri vertu þá sjálfur sú breyting” segir Tolli að sé sín lífspólitíska sýn.
„Þetta er mín gjöf til sjálfs míns og annarra,” segir Tolli, en bætir við að hann sé að setja upp Bata-verkefnið þannig að það geti verið sjálfbært án hans.
„Ég á ótrúlega marga vini sem ég hef kynnst inn í fangelsunum, mér þykir ótrúlega vænt um þetta fólk og mér þykir vænt um þann árangur sem við höfum náð.“
Samtalið í heild sinni má finna í hlaðvarpsþættinum Einmitt.