Sóldís er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.
Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Sóldís fer vel yfir allt Ungfrú Ísland ferlið í þættinum, eins og hvernig „casting“ virkar.
Hún var nýorðin átján ára þegar hún tók þátt og segist vera reynslunni ríkari.
„Við erum að læra alls konar í ferlinu; hvernig við eigum að bera okkur á sviði, hvernig við eigum að standa, berum okkur sjálfar fram til almennings, svara spurningum á sviði. Manni er svolítið kastað í djúpu laugina, þú þarft eiginlega að læra að standa með sjálfri þér og það er það sem ég lærði í gegnum ferlið,“ segir hún.
Sóldís segir að það hafi ekki allir verið spenntir fyrir hennar hönd að taka þátt í Ungfrú Ísland og hafi hún fundið fyrir fordómum frá sumum, sem hún segir byggða á rangri ímynd af fegurðarsamkeppnum.
„Þetta er svo mikil sjálfsstyrking, þú ert svo mikið að læra á sjálfa þig. Þetta er ekki bara dæmt út frá útliti,“ segir hún.
„Ég var bara átján ára og ég er allt önnur manneskja í dag en ég var fyrir ári síðan. Þá var ég í menntaskóla og var sjálf mjög lítil í mér sem unglingur, var mjög feimin að tala við almenning og kynna skólaverkefni fyrir samnemendum. En núna hef ég talað á sviði og talað fyrir framan fólk á stórum viðburði. Það hefur hjálpað mér að tala fyrir framan fólk án þess að vera stressuð.“
Sóldís viðurkennir að hún hafi verið hissa þegar hún vann og á erfitt með að útskýra tilfinninguna sem hún upplifði þegar nafn hennar var kallað.
„Ég get eiginlega ekki útskýrt, ég fór í smá blakkát, ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist en þetta var svo ótrúleg tilfinning. Ég var bæði ótrúlega glöð en stressuð, augljóslega. Þetta var líka síðasta kvöldið með stelpunum sem hóp, þannig það voru líka miklar tilfinningar. En ég var ótrúlega glöð með að hafa unnið og þetta er eitthvað sem ég hafði alltaf viljað frá því að ég var lítil en ég auðvitað var líka ekki að búast við þessu. Yngsti keppandinn og í fyrsta skipti að keppa. Þetta var rosaleg tilfinning og ég get eiginlega ekki svarað þessari spurningu ennþá,“ svarar hún brosandi.
Sóldís mun krýna næstu Ungfrú Ísland þann 3. apríl næstkomandi. Hún ætlar þó ekki að leggja skóna á hilluna.
„Ég er að fara að keppa í Miss Earth,“ segir Sóldís spennt. Það er ekki komin dagsetning hvenær keppnin verður en í fyrra var keppnin í nóvember.
Ungfrú Ísland sendi í fyrsta sinn út fulltrúa fyrir hönd Íslands í fyrra, Hrafnhildi Haraldsdóttur (Ungfrú Ísland 2022). Keppnin var haldin í Filippseyjum og lenti Hrafnhildur í öðru sæti.
„Henni gekk svo ótrúlega vel og fannst þetta ferli vera svo uppbyggjandi og ótrúlega gaman, þannig við viljum halda áfram,“ segir Sóldís.
„Ég er ótrúlega spennt að halda áfram í þessum bransa út af því þetta hefur gert svo ótrúlega mikið fyrir mig andlega. Ég er bara ótrúlega spennt líka að halda áfram að nota rödd mína og vera fyrirmynd og vera Íslandi aftur til sóma í opinberri keppni.“
Fylgdu Sóldísi á Instagram. Þú getur einnig fylgt Ungfrú Ísland á Instagram og TikTok.