Ragnhildur kallar þetta manneskjugeðjun, margir þekkja hugtakið á ensku: people pleasing.
„Óhófleg manneskjugeðjun er eitt af fjórum viðbrögðum taugakerfisins til að finna til öryggis í ógnandi aðstæðum. Hin þrjú eru berjast, flýja eða frjósa,“ segir Ragnhildur og bætir við að manneskjugeðjun sé okkar leið til að upplifa öryggi í samböndum.
„Ef öllum líkar vel við okkur erum við örugg. Þá líður okkur vel. Kvíðinn er minni. Óttinn við höfnun dvínar. Við verndum sjálfið með að þóknast og geðjast. Hvort sem það er afi og amma, Gulli frændi, nýi kærastinn eða tútturnar í saumó,“ segir hún og bætir við:
„En óhófleg manneskjugeðjun eru yfirleitt svik við sjálfan þig, því þarfir annarra eru settar framan þínum eigin. Langanir annarra skipta meira máli en þínar. Þú tekur ábyrgð á tilfinningum og viðbrögðum annarra. Þú segir JÁ þegar þú vilt segja NEI.“
Ragnhildur tekur nokkur dæmi:
„Þú vinnur frameftir svo yfirmaðurinn sé sáttur.
Þú ferð í partý svo gestgjafinn verði ekki skúffaður.
Þú hangir yfir imbanum langt fram á kvöld svo makinn sé ekki aleinn í stofunni.
Þú frestar ræktinni til að sækja dúk í hreinsun fyrir mömmu.
Þú hlærð að bröndurum sem eru úr takti við þín gildi.
Þú leyfir öðrum að traðka yfir mörkin þín.
Þú forðast að taka ákvarðanir.
Þú segir JÁ EKKERT MÁL á núlleinni við öllum beiðnum frá vinum og vandamönnum.“
Ragnhildur segir fólk gera þetta til að fá samþykki og viðurkenningu. „Þá erum við örugg í okkar samböndum við fólk,“ segir hún.
Þetta getur haft skelfileg áhrif að sögn Ragnhildar.
„Manneskjugeðjun leiðir oft til kulnunar, örmögnunar, kvíða, svefnleysis, depurðar og vonleysis. Kviðarholið fyllist kvíðahnút við að skoða „to-do“ listann af öllum verkefnunum sem þú átt eftir að gera fyrir aðra,“ segir hún.
„Á meðan bíða þín eigin verkefni. Þín eigin sjálfsrækt er eins og uppþornaður kaktus í stofuglugganum því þú átt ekki mínútu aflögu.
Það er mikilvægt að setja öðru fólki mörk. En það er ekki síður mikilvægt að tileinka sér möntrur sem eru persónuleg mörk fyrir sjálfið.“
Ragnhildur segir manneskjugeðjun vera lærða hegðun.
„Þegar við fæðumst er ekki snefill af manneskjugeðjun.
Langar þig að sofa elsku foreldri, mér er drull…. gefðu mér að borða.
Langar þig að horfa á sjónvarpið…. gleymdu því…. ég ætla að rífa allt og slíta úr skúffunum.
Langar þig að fara í slakandi heitt bað … NEIIII…. ég ætla að kúka uppá bak.
Og þess vegna getum við aflært þessa hegðun á fullorðinsárum með að setja persónuleg mörk til að vernda orkuna okkar.“