Búið er að rífa hina goðsagnakenndu Ed Force One flugvél hljómsveitarinnar Iron Maiden sem var á leigu frá íslenska flugfélaginu Air Atlanta. Hægt er að kaupa minnismerki sem gert er úr bútum vélarinnar.
Greint er frá þessu í flugmiðlinum Simple Flying.
Þýska fyrirtækið Aviationtag hefur nú til sölu merki sem gerð eru úr flugvél af gerðinni Boeing 747-400 sem var um tíma kölluð Ed Force One. Var það þegar hún flutti þungarokkshljómsveitina Iron Maiden um heiminn á tónleikaferðalagi. En Eddie er heitið á lukkudýri hinnar bresku sveitar.
Iron Maiden höfðu vélina á leigu hjá flugfélaginu Air Atlanta og var hún máluð með merki sveitarinnar og á stélinu mátti sjá lukkudýrið Eddie.
Þetta eru ekki einu tengslin sem íslenski flugiðnaðurinn hefur við Iron Maiden. En eins og margir muna þá var söngvarinn og orkuboltinn Bruce Dickinson um tíma flugmaður hjá Iceland Express.
Air Atlanta keyptu vélina frá Frakklandi á sínum tíma en auk þess að leigja Iron Maiden hana var hún um tíma leigð til Sádi Arabíu sem fraktvél. Hún var tekin úr notkun árið 2022 og rifin í Bretlandi á síðasta ári.
Aviationtag hefur nú látið smíða 12 merki úr brakinu og hægt er að kaupa slíkt í vefverslun fyrirtækisins. Hvert merki kostar 66,66 evrur, eða tæplega 10 þúsund krónur. Verðlagningin er engin tilviljun og vísun í lagið The Number of the Beast.