Kolbrún greinir frá þessu í ljósvakapistli í Morgunblaðinu í dag.
„Gagnrýnandi The Guardian bar nýlega mikið lof á fjögurra þátta breska sjónvarpsmynd The Adolescence. Hann taldi hana með því besta sem hann hefði séð árum saman, jafnvel í áratugi, í sjónvarpi og gaf henni fullt hús, fimm stjörnur. Ljósvakahöfundur er búinn að sjá fyrsta þáttinn og varð máttlaus eftir áhorfið,“ segir Kolbrún.
The Adolescence segja frá þrettán ára dreng sem er handtekinn fyrir morð og færður til yfirheyrslu.
Hvað eftir annað endurtekur hann að hann hafi ekkert gert. Sönnunargögn segja annað. Hver þáttur er tekinn í einni töku, þannig að persónur sjást mikið á hreyfingu og umhverfið verður lifandi. Manni líður eins og maður sé að horfa á raunverulega atburði,“ segir Kolbrún í pistli sínum og bætir við að leikurinn sé svo sannfærandi að maður trúi því að hver einasta persóna sé til í raun og veru.
„Þetta eru ótrúlega magnþrungnir þættir um unglinga og ofbeldi. Þeir eiga brýnt erindi í samtíma þar sem of margir ráðvilltir unglingar fara sjálfum sér að voða og meiða aðra. Þættina má sjá á Netflix þar sem þeir eru að fá mikið áhorf. Þeir ættu að rata í íslenskt sjónvarp því þeir nálgast það að vera skylduáhorf. Það er ekki þægilegt að horfa á þá, en raunveruleikinn er heldur ekki alltaf sérstaklega geðslegur,“ segir hún.