Hann opnar sig um síðastliðið ár og sjálfsvinnuna sem átti sér stað í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á hér í heild sinni eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Árni byrjaði að vinna í sér sjálfum fyrir nokkrum árum en í fyrra átti sér stað mikil sjálfsvinna sem kenndi honum ýmislegt um hann sjálfan.
„Í gegnum alla þessa vinnu þá komst ég að ákveðnum hlutum um sjálfan mig. Eins og sem dæmi, ég hef alltaf verið svo mikill people pleaser, ég hef alltaf einhvern veginn þurft að hafa alla góða og ef mér líður eins og einhver hafi eitthvað á móti mér þá finnst mér það rosalega óþægilegt og þarf helst að fara og friða það. Þetta er eitthvað sem hefur alltaf verið rosa ríkt í mér, að vilja hafa alla góða, og ég bara einhvern veginn áttaði mig á því að þú getur ekki alltaf haft alla góða, lífið virkar ekki þannig,“ segir Árni.
„Þannig ég hef verið í ákveðinni vegferð að leyfa mér að vera ég og ef það truflar einhvern eða stuðar einhvern þá er það þeirra vandamál, ekki mitt. Ég er líka búinn að vera að læra meira inn á mig og fá að vera bara ég án þess að þurfa að hafa áhyggjur af einhverjum öðrum.“
Árni segir ferlið hafa verið mjög frelsandi og það hafi verið bjargráð að fara til sálfræðings og finna út af hverju hann er eins og hann er, af hverju hann bregst við ákveðnum hlutum á ákveðinn hátt, hvernig hann virkar. Hann komst líka að öðru, að hann þarfnaðist viðurkenningu frá öðrum.
„En ég þarf ekki á þessu að halda, ég get náð í þetta innra frá,“ segir hann.
Árni segir slíka vinnu ekki gerast yfir nóttu og þetta taki tíma. „Ég ætla ekki að segja að ég sé kominn með þetta lengra en að átta sig á þessu. Bara vá, ég er að gera þessa hluti því ég vil að þetta hérna fólk sjái þetta og segi: „Vá, Árni, þú ert að standa þig rosalega vel.“ Í staðinn fyrir að ég geti gert mína hluti og síðan litið í spegil og sagt: „Vá, hvað þú stendur þig vel, þú ert geggjaður.““
Eitt af því sem hann gerði var að sækja námskeið í Austurríki. „Manni er sagt á námskeiðinu að segja ekki mikið frá því, þannig ég má í raun ekki segja mikið frá einhverjum smáatriðum. En þetta er rosa kröftugt sjálfsvinnunámskeið þannig séð. Þetta voru 12 til stundum 16 tímar á dag í ákveðinni sjálfsvinnu. Þetta var eins og að vera liggur við hjá sálfræðingi í nokkra daga og þú ert í hóp af fólki og ert að kafa ofan í alls konar hluti.“
Árni ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni.
Fylgstu með Árna á Instagram.