fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fókus

Gyða tók sprettinn heim ef hún heyrði í sjúkrabíl – „Ég var alltaf viss um að þetta væri dagurinn sem þeir væru að sækja hana, þetta væri bara búið“

Fókus
Þriðjudaginn 11. mars 2025 08:24

Gyða Dröfn Tryggvadóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gyða Dröfn Tryggvadóttir lýðheilsufræðingur segir stóran hluta fólks burðast með sár úr æsku sem valdi svo alls kyns hegðunarmynstrum á fullorðinsárum. Gyða, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að við séum byrjuð að skilja áföll og meðvirkni mun betur en áður og að það séu forréttindi að vera uppi á 21. Öldinni.

„Öll sárin okkar eru í raun sjálfhverf. Ef ég er með sár sem er opið, þá er eðlilegt að það sé mjög sárt ef einhver rekst í sárið. Það sama gildir um sárin innra með okkur. Einhvern tíma datt einhverjum í hug að skipta þessu í búta, en við erum ein heild og það sem er inni í okkur er ekki aðskilið því sem er fyrir utan. Þegar við höfum alist upp í aðstæðum sem á einhvern hátt voru ekki öruggar er taugakerfið okkar stöðugt að bregðast við aðstæðum á þann hátt að það sé ekki öryggi í heiminum. Þaðan koma svo viðbrögð sem við jafnvel höldum áfram í áraraðir. Við erum alltaf að reyna að finna leið fyrir okkur til að vera í lagi. Þaðan kemur bæði stjórnsemi og að vera alltaf að þóknast. Við ráðum ekki við þetta með rökhuganum, því að um leið og það kerfi tekur við, þá erum við búin að aftengja við hann hluta heilans sem tengist lífinu eins og það er. Þegar við erum föst í viðbragði ótta, flótta eða frjósa er mjög lítið um forvitni, heldur gengur allt lífeðlisfræðilega út á að finna öryggi. Þegar við erum föst þar, þá erum við alltaf að bregðast við því sem er fyrir utan okkur,“ segir hún.

Glímdi við áföll

Gyða er bæði lýðheilsufræðingur og sérfræðingur í áfalla-og uppeldisfræðum. Það er ekki tilviljun að hún ákvað að feta þá braut í lífinu. Hún þekkir það af eigin raun að glíma við áföll úr æsku og meðvirknimynstur tengd uppeldisaðstæðum.

„Það að vera inni í fjölskyldu þar sem eru líkamleg eða andleg veikindi, þá breytist öll dýnamík og það fer mikil orka og athygli í það. Barn getur farið að taka ábyrgð allt of snemma ef það er með veiku foreldri,“ segir Gyða, sem var yngsta barn foreldra sinna og upplifði að horfa á móður sína veikjast mikið. Gyða var því ung orðin umönnunaraðili móður sinnar og farin að taka mikla ábyrgð.

„Kvíðinn og óttinn varð eðlilegur hluti af lífinu og ég taldi að þannig væru bara hlutirnir. Ef ég var að labba heim úr skólanum og heyrði í sjúkrabíl þá um leið tók ég sprettinn heim. Ég var alltaf viss um að þetta væri dagurinn sem þeir væru að sækja hana, þetta væri bara búið. Ég hélt alltaf að hún væri að deyja. Sem barn er maður ekki í þeirri stöðu að geta beðið um það sem maður þarf í uppeldi. Maður lærir að fórna eigin þörfum, hundsa eigin þarfir og að lokum hætta að þekkja þarfir sínar. Með tímanum þróast það svo út í mikla meðvirkni, þar sem maður er stöðugt að reyna að halda öðrum heilum svo að það verði í lagi með mann sjálfan.“

Einkennin komu aftur

Þegar Gyða hóf sína vegferð í sjálfsvinnu áttaði hún sig á því að hún var enn föst í skynjun og viðbrögðum á lífinu sem hún hafði þróað með sér sem barn. Svo hafði hún gert sitt besta til að breiða yfir einkennin sem komu bara aftur.

„Ég nota oft þessa líkingu með vegg sem er blautur og það er rakablettur á honum, af því að þetta raunverulega gerðist hjá mér. Ég brást við með því að mála og pússa veginn og hann varð svona glimrandi fínn á eftir. Nema að svo snýr rakabletturinn aftur af því að það sem olli honum var ekki farið neitt. Það sem fer svo að gerast hægt og bítandi er að ég fer að fá alls konar einkenni sem ég tengdi ekkert við þetta. En svo kemur í ljós að það er leki einhvers staðar sem veldur þessum rakabletti sem hefur svona mikil áhrif. Rakinn á veggnum er einkennið, en lekinn sjálfur er grunnurinn. Ef ég færi þetta dæmi yfir á okkur, þá er grunnurinn æskan okkar, þar sem lekinn byrjar og með tímanum myndast þessi rakablettur sem erum við í skekkjunni okkar sem fullorðið fólk. Svo höfum við fundið ýmsar leiðir til að laga einkenni og birtingarmyndir. En það getur ekkert raunverulega breyst fyrr en við áttum okkur á því hvar lekinn er og við förum að vinna með hann.“

„Lífið kann að lifa og vill lifa“

Gyða hefur með árunum lært að lifa í mikilli sátt og þakklæti. Hún segir gríðarlega margt að gerast í sjálfsþekkingu fólks og við lifum á mjög áhugaverðum tímum.

„Við erum heppin að vera uppi á 21. öldinni, því að það er svo margt að koma inn núna sem hjálpar okkur í sjálfsþekkingu. Bæði upplýsingar varðandi heilann, taugakerfið og margt fleira. Það er að verða meiri samhljómur með vestrænum vísindum og því sem austræn fræði hafa haldið á lofti í aldaraðir. Við erum að þokast lengra og lengra í þá átt að skilja að við erum öll tengd og það eru mjög áhugaverðir tímar framundan,“ segir Gyða, sem hefur iðkað Zen hugleiðslu í meira en 20 ár. Hún segir þá iðkun hafa hjálpað sér á allan hátt. Ekki síst að læra að samþykkja lífið eins og það er og láta af mótstöðu.

„Í grunninn snýst svo margt um að vera með lífinu eins og það er, en ekki eins og við viljum. Lífið kann að lifa og vill lifa, en ekki endilega á þann hátt sem við viljum. Við erum með okkar hugmyndir um lífið, okkur sjálf og aðra og þegar hlutirnir eru svo öðruvísi verður oft til mótstaða og þessi mótstaða veður síðan vandamálið. Vinnan snýst um að nálgast sjálfan sig, horfast í augu við sig og taka sér eins og maður er. Hætta niðurrifi, hætta því að þurfa að vera fullkominn í einu og öllu, sætta sig við mistök og breyskleika. Lífið er áskorun og við höfum svo litla stjórn á því sem lífið býður upp á. Við höfum stjórn á mörgum hlutum, en miklu fleiri höfum við enga stjórn á. Þegar þú byrjar að heila sjálfan þig ert þú að heila heiminn.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Gyðu og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Tinna færir kirkjuna nær fólkinu með samfélagsmiðlum

Tinna færir kirkjuna nær fólkinu með samfélagsmiðlum
Fókus
Í gær

„Ég fékk að vita að fólk í þessum hópi hefur oft miklu að tapa“

„Ég fékk að vita að fólk í þessum hópi hefur oft miklu að tapa“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sex mistök sem notendur þyngdartapslyfja gera

Sex mistök sem notendur þyngdartapslyfja gera
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þakklát fyrir erfiðleikana – „Ég þorði að vera berskjölduð, ég þorði að vera ég“

Þakklát fyrir erfiðleikana – „Ég þorði að vera berskjölduð, ég þorði að vera ég“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sjáðu fyrir og eftir myndirnar: Áhrifavaldurinn sem vildi líkjast Instagram-filter hefur látið leysa upp fylliefnin í andlitinu

Sjáðu fyrir og eftir myndirnar: Áhrifavaldurinn sem vildi líkjast Instagram-filter hefur látið leysa upp fylliefnin í andlitinu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kvöldbakstur Sunnevu klúðraðist illilega – Sjáðu myndbandið

Kvöldbakstur Sunnevu klúðraðist illilega – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Mögnuð tónleikaupplifun í myrkri – Autechre á Íslandi 15. ágúst

Mögnuð tónleikaupplifun í myrkri – Autechre á Íslandi 15. ágúst
Fókus
Fyrir 5 dögum

Gómaði eiginmanninn með buxurnar á hælunum og hjákonuna í aftursætinu

Gómaði eiginmanninn með buxurnar á hælunum og hjákonuna í aftursætinu