fbpx
Mánudagur 10.mars 2025
Fókus

Stórkostlegur Stormur – Stjarna Unu skín enn skærar

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 10. mars 2025 16:30

Vinahópurinn í Stormi. Mynd: Þjóðleikhúsið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stormur, nýr íslenskur söngleikur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og Unu Torfa, var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 6. mars.

Stormur fjallar um hóp átta vina, fimm stúlkna og þriggja stráka, sem eru að útskrifast úr menntaskóla og standa á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Spurningar eins og hvaða nám á ég að fara í, hvað langar mig að gera í framtíðinni, hvern elska ég ef einhvern, get ég elskað einhvern ef ég elska ekki sjálfan mig, get ég skilið við fortíðina og drauga hennar? Banka upp á. Þetta eilífa bras fullorðinsáranna með allri sinni gleði, sorg og sigrum.

Una leikur að hluta sjálfa sig, Elísabetu unga tónlistarkonu sem er undir mikilli pressu að reyna að ljúka við sína fyrstu plötu í kjölfar þess að lag sem hún sendi frá sér varð óvænt vinsælasta lag ársins. Hluti vinahópsins er með henni í hljómsveit, og sumarið eftir útskriftina hittast vinirnir reglulega í æfingahúsnæði bandsins til að klára plötuna, fíflast saman og ríghalda í tilfinninguna að vera ung og frjáls aðeins lengur. Elísabet áttar sig smám saman á því að hún er ástfangin af Helgu vinkonu sinni og við tekur átakamikið ferðalag þar Elísabet þarf að ákveða hvort hún eigi að þora að segja Helgu hug sinn og kannski hætta á að missa hana fyrir fullt og allt. En um leið og gleðin er í hámarki hjá vinunum er eins og jörðin byrji að gliðna undir fótum þeirra, eins og segir í lýsingu Storms á vef Þjóðleikhússins.

Unnur Ösp og Una skrifa handritið saman, Unnur Ösp leikstýrir, lög og söngtextar eru eftir Unu og tónlist eftir hana og kærasta hennar Hafstein Þráinsson, Ceasetone.

Áhætta sem skilar sér margfalt

Á frumsýningardegi skrifaði Unnur Ösp eftirfarandi á Facebook:

„Stóra stundin er runnin upp. Það hefur geysað stormur úti nánast alla daga æfingatímabilsins. Stormurinn hefur einnig hreiðrað um sig í hjartanu á leiðinni… í óttanum, leitinni, gleðinni og sannfæringunni. Á svona stundu fyllist maður þakklæti. Þakklætis til Magnúsar Geirs og Þjóðleikhússins fyrir að taka risa áhættu með nýjum íslenskum söngleik sem ég trúði á að ætti erindi við ungt fólk á öllum aldri. Þakklætis til allra þeirra fjölmörgu aðila sem komu að handritaráðgjöf á leiðinni, peppuðu, leiðbeindu, höfðu áhyggjur, efuðust og trúðu. Fagfólk, vinir, samstarfsmenn, já og börnin mín sem fengu að heyra ófáar vendingar á sögunni í kvöldsögustund. Þakklætis til listræna teymisins sem með brjálæði, ástríðu og elsku lögðu allt að veði því þið trúðuð því að þessi saga gæti skipt máli. Lee Proud Ilmur Stefánsdóttir Maria Theodora Olafsdottir Ásta Jónína Arnardóttir Hafsteinn Þráinsson Þóroddur Ingvarsson Kristján Sigmundur Einarsson Ása María. Framleiðsludeild, tæknifólk og allur sá gríðarlegi fjöldi sem kemur að svona sýningu. Við gerðum þetta öll saman.
Þakklætis til listamannanna sem á sviðinu standa og bera þetta uppi. Með hugrekki, örlæti og gleði gáfuð þið sögunni og mér byr undir báða vængi alla daga.

„Bara vera í uppsprettunni, fylgja tilfinningunni -alltaf. Allt annað er drasl!”
Og þvílíkur hópur af nýju listafólki sem við kynnum nú til leiks.
En umfram allt vil ég þakka unga, næma og einstaka dressernum mínum sem lá á þessum hæfileikum þegar ég kynntist henni fyrir 3 árum. Una Torfadóttir er sennilega elsta sál sem ég hef fyrirfundið. Hún hefur kennt mér á hverjum degi að þora, treysta…..sleppa tökunum og elska. Þetta er nefnilega saga um ástina. Unga tónlistarkonu sem stendur inni í eigin söngleik og ákveður að elska. Ég held við þurfum á svoleiðis sögu að halda núna.“

Það er óhætt að ímynda sér að það sé mikil fjárhagslega áhætta fólgin í að setja upp dýrt leikverk sem fjöldi einstaklinga kemur að, tala nú ekki um þegar leikhópurinn er að mestu ungur og óþekktur. Samkeppnin um athygli og aura unnenda menningar og leikhús er mikil enda framboðið mikið og margt af því áhugavert.

Hér skilar áhættan sér svo sannarlega margfalt því Stormur er alveg hreint afbragðs skemmtun fyrir nær alla aldurshópa, að mínu mati gætu börn eldri en 10 ára alveg skemmt sér stórvel í fylgd forráðamanna svona ef samtalið er tekið um þyngri mál sem söngleikurinn tekur á.

Þó söngleikurinn fjalli eins og áður sagði að hluta um Unu sjálfa, þá er hún löngu búin að sanna sig sem ein af betri og vinsælustu tónlistarkonum samtímans, búin að senda frá sér plötu og fjölda vinsælla laga. Ef hún hefði verið óþekkt þá væri fyrirsögnin líklega Stjarna er fædd, en í staðinn skín stjarna Unu enn skærar, því hún sýnir að hún getur ekki aðeins sungið, samið tónlist og spilað á gítar og píanó, heldur einnig leikið á bæði hlátur- og hjartataugar áhorfenda með leik sínum.

Vinahópurinn í Stormi. Mynd: Þjóðleikhúsið

Ný lög Unu hljóma 

Aðdáendur Unu fá svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð því Stormur inniheldur nokkur af hennar vinsælustu lögum, auk þess sem hún samdi ný lög sérstaklega fyrir söngleikinn.

„Í kvöld frumsýnum við Storm, söngleik okkar Unnar Aspar, og ég er að rifna úr stolti og þakklæti. Það er nákvæmlega ekkert sjálfsagt við svona tækifæri.
Það sem við erum að gera er svo fallegt og skemmtilegt og gjöfult fyrir okkur og nú fáum við loksins að opna dyrnar upp á gátt og deila því með ykkur. Stormur er verk um ástina og lífið, það að fullorðnast, að skapa, gráta, hlæja og óttast. Við erum öll unglingar í hjartanu en lífið neyðir okkur til að brynjast, nota skynsemina og hafna stærstu tilfinningunum okkar. Nei takk segjum við. Verkið hjálpar okkur að opna, gráta og hlæja og sitja aðeins með óttanum til þess að geta síðan valið ástina og lífið.
Ég mun þakka fyrir þetta ævintýri þangað til ég dey, Unnur Ösp og allir snillingarnir í leikhúsinu eru búin að breyta lífi mínu fyrir fullt og allt.
Muniði, bara þora og treysta,“ skrifar Una í færslu á Facebook á frumsýningardegi.

Af þeim leikurum sem leika vinahópinn útskrifuðust þrjú þeirra vorið 2024 af leikarabraut sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Jakob van Oosterhout og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir. Salka Gústafsdóttir mun útskrifast nú í vor og Iðunn Ösp Hlynsdóttir hefur leiklistarnámið í haust. Marinó Máni Mabazza er dansarinn í hópnum, útskrifaður af nútímadansbraut LHÍ og listdansbraut MH. Sigurbjartur Sturla Atlason er svo sá reyndasti í hópnum þegar að leikhúsi kemur.

Eldri og reyndari leikarar í hópnum ásamt Sigurbjarti eru Kjartan Darri Kristjánsson, Hildur Vala Baldursdóttir og Hallgrímur Ólafsson. Öll skila þau hlutverkum sínum vel, þó Hallgrímur uppskeri mestan hláturinn frá áhorfendum. Enda er hann í óvinsælu hlutverki umboðsmanns Elísabetar, sá sem vill græða á henni sem mest. Hallgrímur nær síðan öllum salnum í rífandi stemningu þegar hann tekur brot af lagi Magnúsar Eiríkssonar, Þorparinn, sem Pálmi Gunnarsson gerði að smelli í lok níunda áratugarins. Hluti áhorfenda í salnum var líklega ekki fæddur það ár, en mikið var sungið og klappað eigi að síður undir því lagi.

Haraldur tekur Þorparann. Mynd: Þjóðleikhúsið

Nýju leikararnir hafa sum stigið á svið áður, þó ekki í jafn veglegum hlutverkum og hér. Öll fá þau að „eiga sviðið“ hvert og eitt þó með mismiklum hætti. Birta er greinilega skemmtikrafturinn í vinahópnum og heillaði áhorfendur upp úr skónum með bröndurum, mislélegu uppistandi og krafti sínum. Hér er komin arftaki helstu gamanleikkvenna þjóðarinnar. Salka er sú feimna í vinahópnum og stendur í skugga hans fyrri part verksins, en sýnir svo hvað í henni og sönghæfileikum hennar býr þegar á líður. Berglind og Jakob eru bæði afbragð í myrkari hlutum verksins þegar djöflar þeirra togast á í þeim með mismunandi hætti.

Leikmynd er snilldarlega leyst, þar sem byggður er eins konar stigi með öllum, þar sem hljómsveitin situr undir og sést rétt glitta í.

Ég hef elskað að fara í leikhús frá barnsaldri og ég hreinlega elskaði að sitja undir Stormi í Þjóðleikhúsinu, þar sem söngleikurinn spilaði á allar tilfinningar mínar og ég bæði hló og grét. Ég mæli svo sannarlega með ferð á verkið fyrir nær alla aldurshópa.

Berglind og Una í hlutverkum sínum. Mynd: Þjóðleikhúsið
Birta í hlutverki sínu. Mynd: Þjóðleikhúsið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Kvöldbakstur Sunnevu klúðraðist illilega – Sjáðu myndbandið

Kvöldbakstur Sunnevu klúðraðist illilega – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kristjana stekkur beint út í djúpu laugina og stofnar fyrirtæki með Gumma Kíró

Kristjana stekkur beint út í djúpu laugina og stofnar fyrirtæki með Gumma Kíró
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ragnhildur: Ef það fer í taugarnar á þér þegar einhver borðar salat í stað hamborgara, lestu þetta

Ragnhildur: Ef það fer í taugarnar á þér þegar einhver borðar salat í stað hamborgara, lestu þetta
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ellý Ármanns var búin að sjá fyrir áform Ásthildar

Ellý Ármanns var búin að sjá fyrir áform Ásthildar