Emily Willis, sem heitir réttu nafni Litzy Lara Banuelos og er 25 ára, var lögð inn á meðferðarheimilið þann 27. janúar í fyrra vegna ketamínfíknar.
Fljótlega eftir að hún var lögð inn á heimilið fór heilsu hennar að hraka og var í fyrstu talið að um fráhvarfseinkenni væri að ræða.
Í stefnu fjölskyldunnar kemur fram að starfsfólki hafi mátt vera ljóst að hún glímdi við alvarleg veikindi og þeir hefðu átt að senda hana á sjúkrahús. Það var hins vegar ekki gert.
Það var svo þann 4. febrúar að starfsmaður kom að Emily meðvitundarlausri í herbergi hennar og hófust endurlífgunartilraunir um leið. Þær báru loks árangur en ekki fyrr en Emily hafði orðið fyrir varanlegum heilaskaða.
Telja læknar að hún hafi fengið hjartaáfall með fyrrgreindum afleiðingum, og áður en að því kom hafi líffæri hennar verið farin að gefa sig. Með réttri meðhöndlun á sjúkrahúsi hefði verið mögulegt að snúa þeirri þróun við, að mati lögmanna hennar.
Í stefnunni segir meðal annars: „Veikindi hennar voru hunsuð þar til það varð of seint og núna er líf hennar breytt til frambúðar.“ Í stefnunni er bent á að hún hafi skilað hreinum fíkniefnaprófum á meðan á meðferðinni stóð og því hafi hún ekki verið í virkri neyslu á meðferðarheimilinu eins og haldið hefur verið fram.
Lögmaður Willis og fjölskyldu hennar segir við breska vefmiðilinn Daily Star að Emily sé nú í umsjá móður sinnar. Hún geti ekki tjáð sig og ekki hreyft sig og það sé alls óvíst hvort einhver breyting verði á því á næstu misserum.