Íslenska undankeppnin fyrir Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, hefst í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.
Í tilkynningunni kemur fram að 5 lög keppa í köld um að komast áfram í úrslitin 22. febrúar en þá verður framlag Íslands í Eurovision 2025 í Sviss, sem fram fer í maí, valið.
Undanúrslitakvöldin verða tvö, í kvöld og næsta laugardag. Fimm lög keppa hvort kvöld þar sem þrjú lög komast áfram í gegnum símakosningu áhorfenda. Það verða því sex lög sem keppa á úrslitakvöldinu en þá mun niðurstaða alþjóðlegar dómnefndar vega helming á móti símaatkvæðum almennings.
Í tilkynningunni er minnt á að hið svokallaða einvígi sem verið hefur síðastliðin ár á úrslitakvöldinu, milli tveggja efstu laganna verður ekki í ár, heldur er notast við svipað fyrirkomulag og í forkeppni Svía, Melodifestivalen og Eurovision-keppninni sjálfri.
Eins og venjulega er boðið upp á ýmis skemmtiatriði í keppninni en í kvöld mun söngvarinn Aron Can opna keppnina þegar hann flytur lögin Monní og Poppstirni. Kynnar keppninnar, þau Gunna Dís, Benni og Fannar bregða einnig á leik og fá til sín góða og óvænta gesti.
Samkvæmt tilkynningunni eru lögin og flytjendurnir sem keppa í kvöld eftirfarandi en fyrir aftan hvert lag er símanúmer sem hægt er að hringja í til að kjósa lagið:
Frelsið Mitt – Stebbi JAK: 900-9901
Ég flýg í storminn – BIRGO: 900-9902
Eins og þú – Ágúst: 900-9903
Norðurljós – BIA: 900-9904
RÓA – VÆB: 900-9905
Listrænir stjórnendur keppninnar í ár eru þau Selma Björnsdóttir og Thomas Benstem. Með þeim starfar einnig danshöfundurinn Baldvin Alan Thorarensen og aðstoðarleikstjórinn Sigurður Þór Óskarsson. Sviðshönnun er í höndum Luxor, ljósahönnuður er Davíð Már Almarsson og leikmunahönnuður er Alfreð Sturla Böðvarsson.
Yfir hljóði eru Gísli Kjaran og Teitur Ingi Sigurðsson, stílisti keppnisatriða er Sylvía Lovetank og Make-up Studio Hörpu Kára annast hár og förðun. Útsendingastjórar keppninnar eru þeir Þór Freysson og Vilhjálmur Siggeirsson.
Söngvakeppnin fer fram í Kvikmyndaveri RVK studios í Gufunesi og verður í beinni útsendingu á RÚV í kvöld kl. 19.45. Uppselt er á viðburðinn en enn eru nokkrir lausir miðar næsta laugardag þegar seinni fimm lögin verða flutt.