Vala hannaði Lífið er núna húfurnar í ár fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Hönnun húfanna er innblásin af verkum systur Völu, Þórunnar Maríu Einarsdóttur, sem var prjónahönnuðurinn og listakonan Tóta Van Helzing. Tóta lést eftir erfiða og hetjulega baráttu við krabbamein í desember 2021.
Í mjög einlægu viðtali segir Vala frá systur sinni, sköpunarkraftinum og ótrúlegu hæfileikum hennar að skapa eitthvað einstakt. Hún ræðir um baráttu Tótu við krabbameinið, símtalið sem engin systir vil fá og kveðjustundina sem kom allt of snemma.
Vala hefur síðastliðin ár haldið áfram með verkefnið Tóta Van Helzing og haldið lista- og tískusýningar með verkum Tótu. Nú stendur yfir listasýning, House of Van Helzing, í Rammagerðinni við Laugaveg 31. Lífið er núna húfurnar má kaupa í Rammagerðinni, Hagkaup, Krónunni og á Lifidernuna.is.
Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á hann á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Tóta vann sem prjónahönnuður í nokkur ár áður en hún greindist með krabbamein og var virkur félagsmaður í Krafti.
„En þeir sem vita eitthvað um systur mína vita að hennar verk eru rosalega… Það sem hún er mest þekkt fyrir er að vera extravagant,“ segir Vala.
„Þegar ég var beðin um að hanna húfurnar vissi ég nákvæmlega hvernig ég ætti að túlka verk systur minnar. Hún hannaði peysur sem voru allar prjónaðar úr mismunandi garni, mismunandi prjóni, þannig það myndaðist svona mjúkur skúlptúr.“
Þaðan kom hugmyndin að blanda saman prjóni fyrir appelsínugulu húfuna. Vala segir að hún hafi einnig fengið innblástur fyrir efnisvalinu frá systur sinni en húfurnar eru úr 50 prósent ull og 50 prósent endurunnu nyloni. „Allur efniviður sem hún notaði í sín verk var endurunnið garn sem hún fann á nytjamörkuðum eða rakti upp úr öðrum peysum eða fékk gefins,“ segir Vala.
Svarta húfan er með mynstri sem sameinar bæði Tótu Van Helzing og Kraft.
„Lífið er núna lógóið er með svona línuriti á hliðinni og í lógói systur minnar er með leðurblaka. Ég var að teikna leðurblökuna og var að hugsa hvernig gætum við gert þetta, sett þetta saman svo þetta verði Kraftur og Lífið er núna herferðin, og þá myndaðist þetta skemmtilega mynstur í uppábrettingunni á húfunni, sem er Lífið er núna línurnar og leðurblaka systur minnar. Það er eins og þetta hafi alltaf átt að vera.“
Vala og Tóta voru mjög nánar. Það voru tvö ár á milli þeirra, Tóta var fædd í nóvember 1990 og Vala í desember 1992.
„Við áttum mjög litla fjölskyldu og vorum mjög nánar alla tíð,“ segir Vala.
Systurnar voru mjög ólíkar. „Hún var svona töffari sem fór í MH, meðan ég fór í MR og var miklu meiri skinka í ljósabekkjunum og allt þetta,“ segir Vala og hlær.
„Þannig við vorum mjög ólíkar. Ég ætla ekki að segja að við vorum bestu vinkonur alltaf, það fór enginn jafn mikið í taugarnar á mér og systir mín og öfugt, en hún var líka fyrsta manneskjan sem ég hringdi í ef að eitthvað bjátaði á og öfugt. Og það var enginn sem stóð mér nærri og henni nær en hvor önnur.“
Tóta færði sig yfir í Tækniskólann og undi sér mjög vel þar. „Bóklegt nám hentaði henni ekki, hún fann sig ekki í því. Hún ákvað að fara í Tækniskólann og elskaði hann svo heitt og innilega,“ segir Vala.
„Hún var svo hamingjusöm í Tækniskólanum. Hún tók alla kúrsa undir sólinni. Hún var svo ofboðslega handlagin og fær í höndunum.“
Tóta var óhrædd við að hlusta á innsæið og fylgja hjartanu. „Allt mín tískuvit og að þora að stíga út fyrir rammann á ég henni að þakka,“ segir Vala og rifjar upp sögu sem er henni afar minnistæð.
„Smá baksaga, pabbi okkar er mjög svona, hvað á maður að segja, gamaldags, og það mátti alls ekki klippa hárið fyrir fermingu,“ segir Vala.
Eftir fermingu tók við smá uppreisnartímabil hjá systrunum. „Eða þannig, við vorum bara að klippa og lita á okkur hárið,“ segir hún.
„En hún tók þetta alla leið. Hún sagði alltaf: „Þegar ég verð átján ára ætla ég að krúnuraka mig.“ Ég gleymi því ekki,“ segir hún hlæjandi og heldur áfram: „Daginn eftir átján ára afmælið hennar, ég og mamma kíkjum inn í herbergið hennar. Og vá, að krúnuraka sig er ekki mikið mál, en við mamma vorum bara: „Gerði hún það?!“ Því hún hafði bara farið og haldið partý. Heldurðu ekki að krakkinn hafi krúnurakað sig átján ára, á miðnætti á Prikinu. Hún var náttúrulega bara pönk í gegn.“
Vala segir að systir hennar hafi verið engri lík. „Ég man þegar ég var sjálf átján ára, ég var ekki með svona mikið sjálfstraust,“ segir hún.
„Hún var síðan alltaf stutthærð eftir það, það fór henni ofboðslega vel að vera stutthærð. En þetta gefur þér kannski pínu hugmynd um hvernig karakter Tóta Van Helzing var. Það var ótrúlegt að alast upp með henni og mín mesta gæfa.“
Nú stendur yfir sýning, House of Van Helzing, á verkum Tótu í Rammagerðinni við Laugaveg 31. Það er frítt inn og er sýningin opin til 12. febrúar.
Tóta Van Helzing er á Instagram og Facebook. Til að fylgja Völu á Instagram smelltu hér. Lífið er núna húfurnar eru til sölu í Krónunni, Hagkaup, Rammagerðinni og á Lifidernuna.is.
Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.