fbpx
Þriðjudagur 04.febrúar 2025
Fókus

Ívar: „Það er búið að taka þetta viðtal út af netinu og ég þakka guði fyrir það“

Fókus
Þriðjudaginn 4. febrúar 2025 07:45

Ívar Örn er gestur Sölva.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ívar Örn Katrínarson var aðeins 10 ára gamall þegar hann ákvað að verða dópisti og fetaði þá braut í áratugi. Ívar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir kraftaverk að hann sé enn á lífi og fyrir það sé hann óendanlega þakklátur:

„Þetta hljómar örugglega eins og klisja, en ég leitaði til guðs þegar ég var á botninum og ég fékk svar. Ég fékk frið og eitthvað sem ég var löngu búinn að missa trú á að gæti verið í boði fyrir mig. Ég fékk líf eftir dauðann. Mér fannst ég hafa reynt allt, en það var alltaf sami ófriðurinn innra með mér, kvíði og spenna og eitthvað sem ég gat aldrei losnað við. En í þessu augnabliki af örvæntingu gerðist eitthvað. Ég talaði við Jesú og það tók ekki langan tíma þangað til ég fékk frið, einhvern yfirnáttúrulegan frið. Ég fór að biðja eins og óður maður og iðka fyrirgefningu og mæta í bænahópa. Ég hef ekki einu sinni litið til baka síðan ég fann þennan frið og ekki fundið fyrir fíkn. Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið raunverulegt og innihaldsríkt líf,“ segir Ívar, sem segist nú gera allt sem hann getur til að vera fyrirmynd og aðstoða annað fólk:

„Það er fullt af fólki þarna úti sem ég skulda afsökunarbeiðni. Ég vonast auðvitað til að geta gert hreint á milli mín og allra en fyrsta skrefið var að koma sjálfum mér í lag. Ég skil það mætavel að það er fullt af hlutum sem ég gerði sem ég get líklega aldrei bætt að fullu fyrir. Ég er ekki að búast við fyrirgefningu frá neinum, en ég lít svo á að með því að gera mitt allra besta héðan af til að hjálpa fólki og bæta eins mikið fyrir brot mín og ég get, sé ég að gera allt það sem ég get gert.“

Byrjaði í kannabisefnum 11 ára

Ívar ákvað aðeins tíu ára gamall að verða dópisti, eins og hann segir sjálfur frá í nýútkominni bók sinni:

„Ég ákvað þegar ég var tíu ára gamall að ég ætlaði að verða dópisti. 11 ára var ég byrjaður að nota kannabis og drekka áfengi. Mér leið strax betur þegar ég drakk eða reykti kannabis og það sló á kvíðann og lét mér líða eins og ég gæti verið ég sjálfur. Ég hafði drukkið í mig röng áhrif, meðal annars frá tónlist, en rótin að þessu var mikill kvíði sem varð til eftir skilnað foreldra minna. Á þeim tíma ákvað ég að hætta að leika mér eins og önnur börn og ætlaði bara að verða fullorðinn á kolröngum forsendum. Svo bara gekk þetta lengra og lengra mjög hratt. Þegar ég var 15-16 ára gamall var ég kominn á kaf í kókaín, ecstacy og öll þessi hörðu efni. Svo var ég bara í þeim meira og minna eftir það og var nánast aldrei edrú. Á endanum var ég svo farinn að sprauta mig og kominn á kaf í neyslu á krakki, sem er eitt það versta sem þú getur sett í líkamann á þér. Það er eiginlega ótrúlegt að ég hafi komið lifandi út úr allri þessari neyslu. Það dó mikill fjöldi fólks í kringum mig, en einhvern veginn slapp ég alltaf. Ég hef ekki tölu á því hvað ég fór oft inn á Vog í meðferð, en það endaði alltaf á sama stað,” segir Ívar.

Föðurleysið hafði mikil áhrif

Ívar hefur lifað lygilegu lífi, þar sem fjölmargt fólk í kringum hann hefur látið lífið úr neyslu og hann sjálfur var oftar en einu sinni nær dauða en lífi:

„Þetta byrjaði mjög snemma. Ég fékk kolrangar fyrirmyndir úr tónlist og bíómyndum og svo hafði föðurleysið auðvitað mjög mikið að segja. Það að hafa ekki haft neina föðurímynd olli því að ég fór að sækja í föðurímynd frá einhverjum „bad boys“ og þeir brugðust mér auðvitað allir,” segir Ívar, sem gekk á sínum tíma undir nafninu Dr. Mister og var þá einn vinsælasti tónlistarmaður landsins.

„Það var eiginlega alveg sama hvað ég rakst á marga botna sem hefðu dugað flestum, ég hélt bara áfram. Það var ekki nógu mikill botn fyrir mig að enda í fangelsi fyrir að ræna verslun og framkvæma misheppnaða handrukkun. Ég mætti kafdópaður í Kastljósið á RÚV sem tónlistarmaður og laug að alþjóð að ég væri edrú, en það var heldur ekki nógu mikill botn. Þá hafði verið haft samband við móður mína og haldinn neyðarfundur hjá fjölmiðlum yfir því að það væri ekki hægt að halda áfram að birta það sem ég væri að segja af því að ég væri á kafi í neyslu. Móðir mín mætir í Kastljósið og ver mig þar með kjafti og klóm og í kjölfarið samþykki ég að mæta líka í viðtal til að gera hreint fyrir mínum dyrum. En raunveruleikinn var að ég mætti beint eftir viku á vökunni og þambaði hálfan lítra af landa fyrir utan sjónvarpshúsið áður en viðtalið byrjaði. Það er búið að taka þetta viðtal út af netinu og ég þakka guði fyrir það. Það eina sem ég man var að ég var að reyna að ljúga því að ég væri edrú.”

Framdi rán og misheppnaða handrukkun

Ívar var sem fyrr segir dæmdur fangelsi eftir að hafa framið rán í versluninni 10/11 og útfært misheppnaða handrukkun, þar sem hann skaut með haglabyssu á útidyrahurð aðila sem skuldaði honum peninga. En allt kom fyrir ekki og eftir að hann kom út sökk hann bara dýpra og dýpra. Hann leiddist út í frekari glæpi:

„Það sem hélt mér lengi við efnið eftir þetta var að vera orðinn fíkniefnasali og ég átti mér þann draum að verða einhvers konar stórlax í undirheimum Íslands. Ég var fastur í spennufíkn og mikilli neyslu og það var kannski öll þessi dópneysla sem í raun bjargaði mér frá því að verða ekki betri glæpamaður. Af því að þú þarft að hafa meiri stjórn til þess að það geti gerst. Það hljómar kannski skrýtið, en innst inni langaði mig alls ekki að vera eins og ég var, en ég upplifði mig algjörlega fastan og fannst ég ekki geta séð neina leið út.”

Atvikið sem bjargaði honum

Atvikið sem bjargaði Ívari átti sér stað þegar hann var laminn í klessu af hópi manna sem hann taldi að hann væri að fara í fíkniefnaviðskipti við. Það hljómar kannski undarlega, en Ívar segist þessum mönnum ævinlega þakklátur fyrir barsmíðarnar, af því að þar sá hann loks ljósið. Nokkrum dögum síðar var hann kominn inn á Vog í síðasta skipti og hefur verið edrú síðan:

„Ég var að sækja krukku af amfetamíni í Þverholtinu, en þar sátu þeir fyrir mér sex talsins og réðust allir á mig, helmingurinn af þeim menn sem ég taldi félaga mína. Það var eins og tíminn hefði frosið og ég færi úr líkamanum þegar þeir létu höggin dynja á mér. Stoltið var loksins alveg brotið og ég sá skýrt og innilega að ég var bara orðinn sorglegur sprautufíkill. Afneitunin fór á þessu augnabliki,” segir Ívar og heldur áfram:

„Ég veit að það er fullt af mönnum þarna úti sem eru í svipuðum sporum og ég var í og ég veit að innst inni líður þeim mjög illa. Ég trúi því ekki að neinn vilji þennan lífsstíl innst inni. Þegar þú ert fastur í myrkrinu er mjög erfitt að sjá einhverja leið út og þú hreinlega sérð ekki ljósið. En það er alveg sama hvað allt virðist svart, það er alltaf von. Eins lengi og þú lifir. Ég vona innilega að einhver sem er í þessum sporum lesi bókina og heyri mína sögu og finni von út frá því. Ef það tekst þá er markmiðinu með því að segja mína sögu náð. Þó að það væri ekki nema einn einstaklingur sem ég hefði áhrif á.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Stebbi JAK gerir upp árásina: „Það voru allavegana tólf manns sem voru að reyna að valda mér skaða og náðu því töluvert“

Stebbi JAK gerir upp árásina: „Það voru allavegana tólf manns sem voru að reyna að valda mér skaða og náðu því töluvert“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eldgleypirinn Ósk gengin út

Eldgleypirinn Ósk gengin út
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kirkjusókn ungra íslenskra karlmanna að aukast – Skipuleggja messuferðir á Snapchat og lesa biblíuna

Kirkjusókn ungra íslenskra karlmanna að aukast – Skipuleggja messuferðir á Snapchat og lesa biblíuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Sjáðu hvernig gervigreindin breytir texta í glærukynningu

Fræðsluskot Óla tölvu: Sjáðu hvernig gervigreindin breytir texta í glærukynningu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Anna María reyndi að vara við geranda litlu frænku sinnar – „En enginn hlustaði“ og þolendur urðu fleiri

Anna María reyndi að vara við geranda litlu frænku sinnar – „En enginn hlustaði“ og þolendur urðu fleiri
Fókus
Fyrir 5 dögum

Frægir karlmenn sögðu óviðeigandi hluti um brjóst hennar og allir hlógu

Frægir karlmenn sögðu óviðeigandi hluti um brjóst hennar og allir hlógu