Tónlistarkonurnar Katrín Myrra og Klara Einars senda frá sér lagið VBMM? í dag, föstudaginn 28. febrúar. Lagið vinna þær og semja saman ásamt upptökustjóranum Daybright. Þetta er í fyrsta sinn sem þær vinna saman og segja þær mikilvægt að tónlistarkonur vinni saman, strákarnir séu duglegri í því enn sem komið er að vinna saman með þessum hætti.
„Við erum ótrúlega spenntar fyrir þessari útgáfu. Lagið er algjör gellu-hittari, poppað ástarlag í 2000’s stílnum, og titillinn VBMM? stendur fyrir Viltu byrja með mér? Það tekur okkur til þess tíma þegar MSN var aðalmálið, þegar tölvurnar voru nýkomnar á netið og unglingar voru að skiptast á skilaboðum í MSN-chattinu,” segir Katrín Myrra um lagið.
„Við erum að blanda saman nútíma poppi og acoustic kassagítar sem vekur upp nostalgíu frá þessum skemmtilega tíma.“
Klara Einars var á dögunum tilnefnd til hlustendaverðlaunanna en þetta er fyrsta lagið sem hún kemur að á þessu ári.
„Mér fannst þetta spennandi. Gaman að vinna með annarri tónlistarkonu í útgáfu, ég vann tvö frábær lög með Hubba Bubba sem komu út í haust en þetta er meira svona „girl power collab“. Við sömdum þetta með Daybright upptökustjóra og leyfðum okkur bara að hafa gaman að þessu og „girl-a“ yfir okkur,“ segir Klara.
Lagið kemur út á öllum streymisveitum í dag föstudag.
Katrín Myrra er kraftmikil tónlistarkona sem hefur skapað sér sess í íslensku tónlistarlífi með einlægum og persónulegum lögum. Hún hefur verið virk í tónlist síðan 2020, með 15 útgefin lög og fær innblástur frá raftónlist. Tónlistarstíllinn hennar hefur verið fjölbreyttur þar sem hún elskar að prófa nýja hljóma, og skrifa djúpa texta sem varpa ljósi á líf hennar og annarra. Árið 2022 gaf hún út fyrstu smáskífuna sína, Hausinn Tómur, og árið 2023 gaf hún út seinni smáskífuna sína, Skuggar. Katrín Myrra hefur komið fram víða, þar á meðal á Októberfest SHÍ, Ís í brauðformi á Prikinu, á hátíðinni Hamingjan við hafið og á fleiri tónleikum og viðburðum.
Klara Einars gaf út fimm lög á síðasta ári en hún hóf formlegan feril sinn eftir að hún sigraði Vælið, söngvarakeppni Verslunarskóla Íslands í lok árs 2023. Þrjú laganna voru hennar eigin og tvö voru samstarfsverkefni með Hubba Bubba. Á síðasta ári kom hún fram á Kótelettunni og á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ásamt fleiri viðburðum. Árið í ár byrjaði svo á tilnefningu til Hlustendaverðlaunanna sem nýliði ársins.
Lag: VBMM?
Flytjendur: Katrín Myrra og Klara
Laga- og textahöfundar: Katrín Myrra Þrastardóttir, Klara Þorbjörg Einarsdóttir, Dagbjartur Daði Jónsson
Upptökustjóri: Dagbjartur Daði Jónsson
Kassagítar: Jóhann Víðir Erlendsson