Hr. Eydís er með enn eina ´80s ábreiðuna og að þessu sinni er það algjör monsterhittari, en það er lagið Relax með Frankie Goes to Hollywood.
Lagið kom út á plötunni Welcome to the Pleasuredome í október árið 1983. Það tók reyndar lagið töluverðan tíma að slá almennilega í gegn, en þegar það komst inn á breska vinsældalistann varð því varla haggað. Það fór á toppinn í lok janúar 1984 og hékk á listanum í heilar 37 vikur eftir það……og það þrátt fyrir að lagið væri bannað á BBC! Já, textinn í laginu þótti of grófur fyrir breskan almúgann og BBC bannaði lagið. Bannið hafði auðvitað þveröfug áhrif, enda ekki á hverjum degi sem lög eru bönnuð á BBC. Það varð auðvitað til þess að allir vildu heyra þetta bannaða lag…..þetta bannaða geggjaða lag, því lagið er það svo sannarlega!
„Ég man þegar Relax kom út, það varð bara allt vitlaust. Óharðnaður unglingurinn ég hafði ekki heyrt annað eins og þegar maður heyrði af því að lagið væri á bannlista breska útvarpsins varð það bara enn betra. Ég hljóp upp Laugaveginn í búðina Hjá Hirti og keypti mér risastórt plaggat af Frankie Goes to Hollywood og hengdi upp á vegg í herberginu mínu á Öldugötu…..og ég hafði bara heyrt þetta eina lag með Frankie. Já, þeir höfðu svo sannarlega áhrif,“ segir Örlygur söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og bætir við:
„Þegar við tókum upp Relax var ekki annað hægt en að fara alla leið í fatavali og taka þetta Frankie-style. Gömlu góðu leðurbuxurnar frá 1994 voru dregnar fram í dagsljósið…..það var þó pínu erfitt að komast í þær. Höfðu leðurbuxurnar hlaupið í skápnum eftir 31 ár?“ segir Örlygur og hlær dátt.
Instagram: eydisband
Facebook: Hr. Eydís (hreydisband)
TikTok: eydisband