„Hann var með krabbamein sem er fremur sjaldgæft, ég held það séu kannski 1-3 á ári sem greinast með þetta á Íslandi. Þetta er gallgangakrabbamein. Það er því miður þeirrar náttúru að það uppgötvast ekki fyrr en það er orðið alltof seint. Þetta var þannig að við sátum á sunnudagsmorgni og vorum að drekka kaffið og þá tók ég eftir því að hvítan í augunum á honum var bara alveg skærgul. Og ég segi: „Stebbi hvað er þetta með augun á þér?““
segir leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í viðtali við Kiddu Svarfdal í Fullorðins.
Eiginmaður hennar, leikarinn Stefán Karl Stefánsson, greindist haustið 2016 og lést tveimur árum síðar, 21. ágúst 2018, 43 ára að aldri.
Steinunn lýsir því að augu Stefáns hafi verið skærgul, svona Minions-gul. Stefán dreif sig á bráðamóttökuna og segir Steinunn fljótlega hafa komið í ljós hvers kyns var.
„Þetta er ekki mikið rannsakað krabbamein, vegna þess að það eru svo fáir sem greinast með það. En það er því miður þannig að það í langflestum tilvikum dregur fólk til dauða og það vissum við mjög snemma.“
Aðspurð um hvernig þau hafi brugðist við segir Steinunn:
„Þetta eru bara eins skelfilegar fréttir og hægt er að fá. Og kannski sérstaklega erfitt fyrir svona ungan mann, hann var bara 41 árs þegar hann greindist. Hann var með mikið af fyrirætlunum og plönum sem hann langar að gera þannig að það er strax stórt skarð. Það er sett upp stór hindrun strax inn í lífið. Hann tók þá afstöðu að vilja halda í vonina og gera allt sem hann gæti til að lengja líf sitt. En hann átti bara við ofurefli að etja. Þetta var mjög erfið barátta og hann var ósáttur við þetta auðvitað. Að sama skapi vildi hann líka vera opinskár í umræðunni um þetta og stinga á þessu tabúi sem sjúkdómar oft eru og ræða þá opinberlega.“
Steinunn segir það ekki alltaf hafa verið auðvelt fyrir fjölskylduna hversu opinn Stefán Karl var með veikindi sín. En hún telur, taki hún sig og börnin út fyrir svigann, að hann hafi gert töluvert gagn með því að vera svona opinskár.
„Því miður er það þannig að heimurinn okkar er þannig að allir eiga að vera svo hraustir og heilbrigðir og allt á að vera svo frábært. Lífið býður okkur líka upp á alls konar mjög erfiða hluti og ég held það sé okkur hollt að vera minnug þess að lífið getur breyst í einni svipan.“
Steinunn segir stærsta skólann fyrir sig hafa verið að fram að greiningu Stefáns stóð hún í þeirri meinvillu að hún væri strætóbílstjóri í eigin lífi.
„En þegar svona kemur upp á þá fattar maður auðvitað, og það ætti ekki að þurfa eitthvað svona hræðilegt eins og svona sjúkdómsgreining komi til. En maður áttar sig auðvitað á því þegar maður er í þessum aðstæðum að í rauninni ræður maður aldrei ferðinni.“