Lögregla telur ekki að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða og virðist ýmislegt benda til þess að um einhvers konar slys hafi verið að ræða.
Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um líf stórleikarans og í frétt Independent er til dæmis rifjað upp að hann hafi harðneitað að horfa aftur á eina af sínum frægustu myndum.
Um er að ræða myndina The French Connection frá árinu 1971 þar sem Hackman fór með hlutverk rannsóknarlögreglumannsins Jimmy „Popeye“ Doyle. Um er að ræða eina frægustu mynd leikarans og fékk hann einmitt Óskarsverðlaunin árið 1972 fyrir besta leikara í aðalhlutverki.
Í frétt Independent kemur fram að Hackman hafi einungis horft einu sinni á myndina, stuttu eftir að hún var kláruð, en það var nóg fyrir hann.
„Ég hef ekki séð þessa mynd síðan hún var fyrst sýnd í dimmu litlu herbergi stuttu eftir að hún var kláruð fyrir 50 árum,“ sagði hann í viðtali við New York Post árið 2021.
„Ef þessi mynd á sér einhverja arfleifð veit ég ekki hver hún ætti að vera. Á sínum tíma fannst mér þetta bara vera mynd um lögreglumann sem kemur í veg fyrir að glæpafjölskylda nái undirtökunum á fíkniefnamarkaði New York-borgar.“
Í viðtali við New Yorker árið 2004 sagði hann einnig að hann hefði verið óánægður með eigin frammistöðu í myndinni. Hann viðurkenndi einnig að eiga erfitt með að horfa á sjálfan sig á hvíta tjaldinu, en í þessari mynd hefði hann ekki gert það sem hann hefði viljað og það hafi haft áhrif á hvernig hann sá myndina.