Mail Online leit yfir feril þessa litríka leikara sem vann til tveggja Óskarsverðlauna á farsælum ferli sínum. Óhætt er að segja að þrátt fyrir mikla velgengni á hvíta tjaldinu hafi líf hans ekki alltaf verið dans á rósum.
Hackman fæddist í San Bernadino í Kaliforníu árið 1930 og var sonur hjónanna Eugene og Önnu. Hackman átti einn bróður, Richard, en fjölskyldan fluttist til Danville í Illinois þar sem þau bjuggu í húsi föðurömmu hans. Þegar Hackman var 10 ára ákvað hann að verða leikari en foreldrar hans skildu þegar hann var 13 ára og yfirgaf faðir hans fjölskylduna í kjölfarið.
„Þennan dag ók hann í burtu og vinkaði mér og ég vissi að hann myndi ekki koma aftur,“ sagði hann í viðtali eitt sinn.
Rúmlega tvítugur að aldri hóf Hackman leiklistarnám við Pasadena Playhouse í Kaliforníu þar sem hann kynntist meðal annars Dustin Hoffman. Það má kannski segja að kaldhæðni örlaganna hafi verið að verki þegar bekkjarfélagar þeirra völdu þá tvo sem þá ólíklegustu í bekknum til að ná árangri í leiklist. Báðir unnu til tveggja Óskarsverðlauna á ferli sínum.
Hann missti móður sína árið 1962 þegar eldur kom upp í íbúð hennar út frá sígarettu.
Hackman hafði það orð á sér að vera erfiður í samstarfi og lenti hann oft á tíðum upp á kant við leikstjóra og meðleikara. Hlaut hann af þessum sökum viðurnefnið „Vesúvíus“ þar sem hann átti það til að vera fljótur upp. Hann þótti góður með sig og stundum dónalegur.
Hackman þótti að sögn ekki leiðinlegt að slást og í umfjöllun Mail Online er til dæmis vísað í gamalt viðtal við Dustin Hoffman. Þar lýsti Hoffman því að Gene hafi stundum látið sig hverfa inn á einhvern bar með þeim orðum að hann þyrfti að slást.
Þó hann væri kominn á áttræðisaldur átti hann það til að lenda í handalögmálum. Árið 2001, þegar hann var orðinn 71 árs, lenti hann í slagsmálum við tvo menn eftir minniháttar umferðaróhapp í Hollywood.
„Hann nuddaðist utan í mig og ég kýldi hann. Svo stökk hinn gaurinn á mig. Við glímdum aðeins í götunni en svo kom lögreglan. Ég náði nokkrum góðum höggum. Hann tók mig hálstaki á jörðinni og það var ekki fallegt – að liggja á götunni verandi næstum því 72 ára.“
Hackman kvæntist fyrri eiginkonu sinni, Faye Maltese, árið 1956 og eignuðust þau saman þrjú börn. Þau skildu árið 1986 og sagði Hackman á sínum tíma að hann hefði vanrækt fjölskyldu sína.
„Þegar maður er leikari verður maður mjög eigingjarn. Maður eyðir svo mörgum árum í að reyna að láta taka eftir sér og það verður mjög erfitt að hafna hlutverkum þegar maður loksins fær þau. Þó ég ætti fjölskyldu tók ég að mér verkefni sem urðu til þess að ég var stundum þrjá, fjóra mánuði frá fjölskyldunni.“
Gene kvæntist svo Betsy Arakawa árið 1991 en þau kynntust í líkamsræktarstöð í Los Angeles. Hún var menntuð í klassískum píanóleik en þeim hjónunum var mjög umhugað um einkalíf sitt og héldu þau sig að mestu út af fyrir sig. Árið 2004 ákvað Hackman að láta þetta gott heita í Hollywood og tók hann að sér sitt síðasta hlutverk það ár. Í kjölfarið fluttu þau hjónin frá Los Angeles til Nýju-Mexíkó þar sem þau lifðu rólegu lífi allt til dauðadags.
Í umfjöllun bandarískra fjölmiðla kemur fram að lögregla sé með andlát þeirra til rannsóknar. Sem fyrr segir leikur ekki grunur á saknæmu athæfi.