Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðingur og einkaþjálfari, betur þekkt sem Ragga Nagli, segir streitu margra byrja snemma á morgnana með kröfum um að vakna fyrr til að haka í öll boxin á verkefnalista dagins.
Í nýjasta pistli sínum segir Ragga okkur ekki þurfa meiri skömm, flestir séu bara að reyna að lifa morguninn af. Pistlar Röggu um heilsu á mannamáli hafa notið mikilla vinsælda um árabil.
„Skrollaðu mjög hratt fram hjá skilaboðum á samfélagsmiðlum með prédikun um að vakna fyrr til að hamast í tveggja tíma prógrammi.
Fyrir mörg er það aukin streita að stytta svefn með að vakna fyrr og haka í öll boxin til að massa morguninn.
Flest eru bara að reyna að lifa morguninn af.
Staulast í kaffikönnuna og hellir bleksvartri iðnaðar uppáhellingu í skítugan bolla.
Gleymdi að setja uppþvottavélina af stað í gærkvöldi.
Hendir ísmola útí kaffið til að koma því hraðar í kerfið.
Skrollar símann meðan þú tannburstar þig með plastbursta.
Hendir þér í þægilega volga sturtu og sjampóið er ekki lífrænt, svansvottað né umhverfisvænt. Svitalyktareyðirinn er kemísk efnasúpa. Dagkremið ódýrt sparsl úr Nettó.
Meðan þú hysjar sokkabuxurnar grýtirðu í þig ristuðu Samsölubrauði með kaffinu … bara með smjöri….gleymdi aftur að kaupa ost.
Enginn tími til að ondúlera Instagramvænan hafragraut úr glúteinlausum höfrum, heimagerðri kasjúhnetumjólk, með kanil frá Sri Lanka, lífrænum eplum og chiafræjum.
Enda þrána alltaf þessi fræ vegna vanrækslu.
Kemur krökkunum í skóna og ýtir þeim inn í bílinn.
Hvar eru helv… bíllyklarnir????
Keyrir í snarhasti í vinnuna og varalitar þig á rauðu ljósi á leiðinni.“
Ragga segir marga með niðurrifið í fullum gangi.
„Af hverju er ég ekki með skothelda morgunrútínu eins og áhrifavaldarnir?
Ekkert þakklæti hripað niður.
Enginn bókalestur.
Enginn göngutúr.
Snúsaði átta sinnum í morgun.
Bjó ekki um rúmið.
Þú ert ekkert síðri heilsumelur þó þú sért ekki með slavískt tveggja tíma prógramm milli fimm og sjö með átján stórkostlega flóknum atriðum.“
Ragga bendir á að allir eiga sömu 24 tímana, en ekki allir eiga sömu aðstæður.
„Ert þú kannski að stunda nám með vinnu, hugsa um veikt foreldri, átt barn með námserfiðleika eða atvinnulausan maka.
Ertu kannski engin morgunmanneskja?
Mögulega í meira stuði seinnipartinn, en fimmtugar skvísur í sumarbústað með bubbluglas í pottinum?
Þú þarft ekki að búa til óþarfa streitu með að troða lífi þínu með skóhorni og smurolíu í kringum að vakna fyrir allar aldir til að þakka öllum vættum, hugleiða í hálftíma, labba berfætt á grasi, drekka macha te.
Kveikja í reykelsi og brenna myrru og standa í lótusstellingu áður en börnin rísa r rekkju.
Suma daga geturðu forgangsraðað hreysti og hollustu.
Hysjar upp um þig Nike spandexbrók, reimar splunkunýja Altra hlaupaskó og skundar í ræktina.
Hendir þér í kalda pottinn og sánu á eftir.
Sötrar prótínsjeik með mysuprótíni og haframjöli á leið í vinnuna.
Aðra daga forgangsraðarðu að sofa eins lengi og mögulega því hver einasta fruma í skrokknum gargar á hvíld.
Enn aðra daga er allt í skrúfunni á síðustu stundu.
Hakaðu bara í 2-3 raunhæf box á dag af heilsuhegðun.
Það er yfirstíganlegt.
Við þurfum ekki morgunrútínuskömm ofan á alla aðra skömm.“