RÚV birti klippu úr viðtalinu við Þorgrím á samfélagsmiðlum sem hefur vakið mikla athygli. Hún hefur fengið yfir 56 þúsund áhorfa á TikTok, 107 þúsund á Instagram og 60 þúsund á Facebook.
„Það eru allir bara: Ert þú kvíðinn? Taktu bara pillu við því. Getur þú ekki sofið? Taktu bara pillu við því. Þetta er hluti af þroska hvers og eins […] Má ég vera mjög skýr? Hættu þessu væli, legðu þig fram, berðu virðingu fyrir fólki, gerðu góðverk, það eru fullt af fórnarlömbum á Íslandi, ekki þú vera þar,“ sagði Þorgrímur í Kastljósi.
Horfðu á klippuna hér að neðan.
@ruvohf„Ertu kvíðinn? Taktu pillu við því.“ Kastljós ræddi við Þorgrím Þráinsson sem hefur rætt við ungmenni í 10.bekk um allt land í 15 ár.♬ original sound – RÚV
Þorgrímur nefndi einnig fjögur atriði sem þarf að ganga í strax að hans mati: „Í stuttu máli er það bara, engir snjallsímar undir 14 ára aldri, engir samfélagsmiðlar undir 16 ára aldri, símalausir grunnskólar og aukin hreyfing og útivera barna og ungmenna. Rannsóknir sýna að þetta myndi breyta næstu kynslóðum.“
Skilaboð Þorgríms eru umdeild og skiptist fólk í fylkingar. Margir taka undir með honum á meðan aðrir gagnrýna orðræðu hans og segja hana skaðlega.
Meðal þeirra sem gagnrýna hann eru hjónin Hulda og Þorsteinn, sem halda úti hlaðvarpinu Hjónvarpið. Þorsteinn heldur einnig úti miðlinum Karlmennskan.
Þau skrifuðu pistil um málið á Patreon-síðu sinni, sem er opinn öllum, og titluðu hann: „Forréttindafirrt forneskja og eitruð jákvæðni.“
„Hann er að heimsækja grunnskólabörn og miðla til þeirra einhverskonar eitraðrar jákvæðni og einstaklingshyggju lífsgildi sem eru beinlínis skaðleg […] Og lausnina við auknum kvíða, óöryggi og krefjandi aðstæðum barna í dag sækir Þorgrímur beint úr smiðju 1960: „Í stuttu máli er það bara: Engir snjallsímar undir 14 ára aldri, engir samfélagsmiðlar undir 16 ára aldri, símalausir grunnskólar og aukin hreyfing og útivera barna og ungmenna,“. Auðvitað. Hvað gæti klikkað með þessari töfralausn?
Þorgrímur Þráinsson er fæddur 1959 með stúdentspróf og eins árs nám á bakinu í frönsku. Síðan hefur hann allskonar flotta reynslu og skrifað fullt af bókum. En er þetta raunverulega það sem börn eiga að þurfa að hlusta á? Lífsskoðanir og forneskjulegar hugmyndir miðaldra rithöfundar með enga haldbæra menntun á sviðinu sem hann er að tjá sig um.
Veit Þorgrímur Þráinsson hvað konur þurfa að leggja mikið á sig til að öðlast credability og fá platform til að tjá skoðanir sínar? Hversu margar konur fæddar 1959 með stúdentspróf séu jafn mikið að a) tjá sig um málefni sem b) þær eru ekki sérfræðingar í og c) hafa jafn mikið platform til að miðla þeim? Sennilega engin. Aldrei.
Þetta er ábyrgðarlaust, forréttindafirrt, eitruð jákvæðni, elur á einstaklingshyggju og yfir höfuð skaðlegt. Skaðleg karlmennska ef þið viljið.“
Hulda og Þorsteinn sögðu Þorgrím vera risaeðlu og forréttindafirrtan karl. Þau spurðu „hvaða forsendur hann hefur til að fullyrða og yfir höfuð hafa skoðun á þessum málum?“ Og hvernig „fær þessi maður aðgengi að grunnskólakrökkum? Hvernig er hægt að réttlæta að hleypa einhverri risaeðlu með forneskjuleg viðhorf inn í skólana?“
„Krakkar sem eru kvíðnir þeim líður illa. Það vitum við. Ætli þeim líði ekki miklu betur eftir að hlusta á forréttindafirrtan karl benda þeim á að hætta að væla og vera fórnarlamb og setja sér markmið?“
Hulda og Þorsteinn segja mikilvægt að gera ekki lítið úr þeim krökkum sem þurfa á lyfjum að halda.
„Guð minn góður hvað þetta er skelfilega skaðlegt. Forréttindafirrt, óábyrgt, litað vanþekkingu og fordómafullt! Eitruð jákvæðni hjálpar engum nema í besta falli einum manni, sem hefur af því tekjur,“ skrifa þau.
Pistilinn í heild sinni má lesa hér.