Hún er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV, og opnar sig um æskuna, eineltið sem mótaði hana og hvernig henni tókst að vinna sig í gegnum erfiðleikana. Hera leggur áherslu á mikilvægi þess að tala um einelti. Börn eru í hættu og getur þetta verið upp á líf eða dauða eins og í hennar tilfelli, en hún glímdi við sjálfsvígshugsanir fyrir tíu ára aldur.
Hera segir frá sjálfsvinnunni síðastliðin ár og hvernig hún kom sér á þann stað sem hún er í dag. Allt þetta og miklu meira í nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á hér að neðan eða hlusta á Spotify.
Hera er konan á bak við Kærleiksspilin, þar sem á hverju spili stendur fallegt og jákvætt kærleikskorn í fyrstu persónu. Á ensku kallast þetta affirmations og hefur lengi verið notað við sjálfsstyrkingu.
Hún fékk hugmyndina að búa til spilin eftir að sonur hennar fæddist, hún hafði sjálf lengi stuðst við kærleikskorn á ensku en langaði að hafa þau á íslensku til að efla sjálfstraust barna. Boltinn fór svo að rúlla og eru til nokkrar útgáfur af kærleikspilum fyrir alls konar hópa.
Hera notaði sjálf affirmations mikið í eigin sjálfsvinnu en hún hefur unnið hörðum höndum að koma sér á þann stað sem hún er í dag; hamingjusöm, sjálfstraust og örugg, en fyrir það hafði hún alltaf sett sig síðast á forgangslistann, ekki kunnað að setja mörk og viljað gera öllum til geðs. Það byrjaði allt í æsku.
Að tala um æskuna og skólagönguna er Heru þungbært en hún á erfiðar minningar sem hún hefur lagt sig mikið fram við að vinna úr.
„Ég var lögð í mjög mikið einelti þegar ég var barn og lenti í miklu aðkasti í skólanum. Ég var, og er, með ADHD og þetta var á þeim tíma þar sem maður var ekkert að fá greiningu strax. Það var líka lítil umræða um þetta, sérstaklega varðandi ADHD hjá stelpum,“ segir hún.
„Ég upplifði eins og ég væri ekki séð, fannst ég vera útskúfuð. Þetta byrjaði líka mikið heima, þar sem mér leið ekki alltaf vel og fór leið í skólann og varð þar af leiðandi skotmark fyrir einelti. ADHD-ið ofan á hjálpaði ekki.“
Hera fékk enga aðstoð frá skólanum né annars staðar og hélt eineltið áfram. „Skólagangan í grunnskóla var alls ekki góð fyrir mig […] Ég var á mjög slæmum stað, glímdi við mikið þunglyndi og ofsakvíða. En ég vann mig upp úr því sjálf,“ segir hún.
Hera segir að hún viti að það sé eitthvað sem fá börn ná að gera en hún hafi þurft að læra inn á sig og treysta á sig sjálfa því litla hjálp var að fá frá öðrum.
„Ég hef alltaf verið þannig gerð að ég get stutt við mig og séð hvað hentar fyrir mig og passar fyrir mig,“ segir hún.
Í dag er Hera á góðum stað. „En mér finnst mikilvægt að tala um einelti. Sem ungt barn var ég með mikið af sjálfsvígshugsunum, sem er náttúrulega bara galið þegar maður er undir tíu ára aldri. En það er eitthvað sem er í alvörunni hjá börnum sem upplifa mikið þunglyndi, þau geta upplifað þessar hugsanir mjög auðveldlega, þó þau viti varla um hvað það er,“ segir hún.
„Þetta hefur mótað mig sem manneskju og ég myndi ekki vilja breyta neinu, þótt það sé mikið sem ég hugsa að sé ógeðslega galið að maður hafi lent í, en verandi manneskjan sem ég er í dag þá er ég þakklát fyrir hvernig þetta er búið að fara.“
Hera þróaði með sér meðvirkni í æsku og var hún mörg ár að átta sig á því og vinna úr því.
„Síðan á mínum fullorðinsárum sé ég að ég ólst upp við mjög mikið people pleasing, átti rosa mikið að þóknast öllum öðrum og segja bara: Já og amen, og vera fín og prúð dama,“ segir hún.
„Ég átta mig á í dag að þetta var ekki hollt fyrir mig, því ég setti aldrei mína vellíðan í forgang og lærði ekki að setja fólki mörk.“
Meðvirknina sér hún greinilega í gömlum ástarsamböndum, en í dag er hún í heilbrigðu og hamingjusömu sambandi og lítur björtum augum fram á veginn.
Hera rifjar upp þegar sjálfsvinnan hófst fyrir alvöru og hún fór að endurhugsa líf sitt. Hún var í fæðingarorlofi með son sinn, hennar fyrsta barn, og var buguð á líkama og sál eins og svo margar mæður kannast við á þessu tímabili. Eina sem hún gerði var að hugsa um og sinna ungabarni og var langt síðan hún hugsaði um sig sjálfa. „Ég hugsaði: Hvað get ég gert fyrir mig? Og upp kom auglýsing frá Kvikmyndaskólanum þar sem stóð: „Vilt þú læra leiklist, sæktu um hér.““
Það hafði alltaf verið draumur hjá Heru að læra leiklist. Sonurinn var að fara að byrja hjá dagmömmu og ákvað Hera að stökkva á tækifærið. „Ég hugsaði: Nú er minn tími kominn.“
Hera ræðir þetta frekar í spilaranum hér að ofan. Það er einnig hægt að hlusta á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgdu Heru á Instagram og hlustaðu á hlaðvarp hennar, Á hærra plani, á Spotify.
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.