Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson, einnig þekktur sem „Fjallið“, birti af sér nýjar myndir sem hafa valdið fólki heilabrotum. Sumir segja að þær láti hann líta út fyrir að vera fimmtán árum eldri en hann er.
Myndirnar birti Hafþór á Instagram reikningi sínum. Þá fyrri eftir að hann rakaði sig nauðasköllóttan. Hina seinni eftir að hann tók allt nema yfirvaraskeggið af sér.
„Þetta hefur gert þig 15 árum eldri,“ er haft eftir einum netverjanum í frétt breska blaðsins The Sun um uppátækið.
„Ég vildi að það væri einhver leið fyrir mig að hafa aldrei séð þetta,“ sagði annar. Sá þriðji sagði þetta grábölvað og sá fjórði: „Þór maður, þú verður að hætta þessu.“
Hafþór, sem var sterkasti maður heims árið 2018, er mjög vinsæll á samfélagsmiðlum og hefur 4,3 milljón fylgjendur á Instagram. Býr hann til mikið af efni, bæði úr kraftasportinu og með eiginkonu sinni Kelsey Henson.
Ekki allir fylgjendur voru jafn hneykslaðir á breytingunni og þessir áðurnefndu. En Hafþór hefur hingað til yfirleitt skartað stuttu hári og skeggi.
„Best útlítandi 200 kílóa skegglausi maður í heimi,“ sagði einn í athugasemdum.