Þátturinn vakti mikla athygli en það var framkoma Þorsteins sem var sérstaklega á milli tannanna á fólki. Gagnrýnendur sögðu hann hafa verið dónalegan og hrokafullan. Eftir að þátturinn kom út svaraði Þorsteinn fyrir sig stuttlega í Story á Instagram en hefur nú birti lengri yfirlýsingu á miðli sínum, Karlmennskan.
Titill pistilsins er: „Heimskur, athyglissjúkur, hrokafullur og of menntaður.“
„Fyrst þegar ég hafði skoðun á einhverju tengt jafnréttismálum var ég sagður heimskur og að ég vissi ekkert um það sem ég væri að tjá mig um. Ég ætti að halda kjafti því ég væri heilaþveginn af kynjafræðideild Háskóla Íslands. Það væri ekki hægt að taka mark á mér. Þegar ég fór að fá stærra platform og varð reglulegur gestur í fjölmiðlum var ég talinn athyglissjúkur. Ég væri bara að sækja mér viðurkenningar femínista. Markmiðið mitt væri að reyna að sofa hjá sem flestum konum. Það væri ekki hægt að taka mark á mér,“ segir Þorsteinn og heldur áfram:
„Núna er ég talinn vera of menntasnobbaður, þyki allt of fræðilegur og hrokafullur. Það sé ekki hægt að taka mark á mér. Með öðrum orðum þá er ég, persónulega, vandamálið sem þarf að stemma stigu við. Ekkert af þessu er nýtt, frumlegt eða málefnalegt. Ekkert af þessu svarar gagnrýni minni á málflutning andfemínista eða ríkjandi karlmennsku. Allt beinist þetta bara að mér sem einstakling.“
Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan eða smella hér.
View this post on Instagram
„Ég er auðvitað bara einhver gaur, með alls konar bresti. Neita ekkert fyrir hroka, karlrembu, yfirlæti, sérvisku, þvermóðsku og alls konar. Ég er aldrei að reyna að sannfæra neinn um annað, enda er ég ekki að bjóða mig fram eða þykjast vera fullkomin birtingarmynd jákvæðrar karlmennsku. Þetta snýst ekkert um mig,“ segir hann.
Þorsteinn segir að hans markmið sé að „benda á hvernig feðraveldið hefur áhrif á sjálfsmynd, viðhorf og hegðun drengja og karla. Markmiðið er að fræða og hreyfa við. Stuðla að breytingum og ábyrgð. Að karlar axli ábyrgð á sjálfum sér og þeim forréttindum sem þeir búa almennt við.“
„Af því að ég er sannfærður um að ef nógu margir karlar og nógu margt fólk í valdastöðum taki undir kröfur um breytt viðmið eftirsóknarverðugrar karlmennsku þá muni svo margt breytast. Þá munu lífsgæði karla aukast, vinátta þeirra mýkjast og verða safaríkari, hegðun þeirra ábyrgari og ofbeldi minnka. Eymd karla og skömm yfir eigin „aumingjaskap“ hverfa. Þeir muni lifa lengur,“ segir hann og bætir við að á sama tíma muni allt samfélagið njóta ávinnings.
„Auðvitað felur það í sér að karlar þurfi að gera eitthvað. Þeir þurfa að horfast í augu við eigin forréttindi og forneskju. Það er vont og óþægilegt. Það þýðir uppgjör á alls konar viðhorfum og hegðunum. Það krefst þolinmæði, tímabundins vanmáttar og óöryggis. Auðvelda leiðin fyrir marga karla virðist vera að halla sér upp að feðraveldinu. Fylkja sér að baki einstaklingum sem létta af þeim pressu sem femínistar setja á um ábyrgð. Fela sig og ásaka femínisma um karlhatur, áhugaleysi á drengjum og upplausn samfélagsins,“ segir hann og bætir við að lokum:
„Andspyrna og afbökun á femínískum áherslum er rauður þráður í gegnum alla femíníska baráttu. Og það sem meira er þá er andspyrnan alltaf eins. Hún þróast ekkert, ekki frekar en margir karlar. Síendurteknir frasar og mýtur, persónuárásir og ofbeldi. Ef þið ætlið ekki að breyta karlmennskunni, mætti ég samt biðja um örlítið frumlegri andspyrnu? Þetta er orðið pínu vandræðalegt.“
Frosti tjáði sig um þáttinn og framkomu Þorsteins í eigin þætti, Harmageddon á streymisveitunni Brotkast, um helgina.
Sjá einnig: „Greyið kallinn honum dettur ekki í hug að frammistaða hans hafi ekki verið mjög glæsileg“
Horfðu á þáttinn hér að neðan