Hún prófaði þá óhefðbundna aðferð og leitaði til grasalæknis, sem var með svörin á reiðum höndum og hefur Þórhildur varla fengið mígreniskast síðan.
Þórhildur, sem var gestur í Fókus í síðustu viku, segir betur frá þessu í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á hér eða hlusta á Spotify.
„Ég er búin að vera með aukandi mígreni síðustu ár, sem byrjaði eftir fæðingu yngri sonar míns. Ég er búin að vera með alls konar kenningar um af hverju þetta er, hvort þetta tengist hormónum eða mataræði,“ segir Þórhildur og bætir við að hún hefur reynt að kynna sér þetta betur síðastliðin ár og finna einhverja lausn.
„Eitt af því sem var bara mjög augljóst fyrir mér í lok síðasta árs var að ég þurfti að gera eitthvað, ég þurfti að skoða þetta betur. Ég var búin að vera á lyfi við mígreni, búin að reyna að laga mataræðið og gera fullt en mér tókst ekki að kortleggja vandamálið.“
Þórhildur leitaði til Kolbrúnu grasalæknis. „Og hún bara: „Já, já ég skil alveg hvað þetta er,““ segir Þórhildur og hlær.
„Hún lét mig fá mataræðisbreytingu sem ég er núna búin að fylgja í sjö vikur. Ég hef ekki fengið mígreni síðan, fyrir utan einhvern einn dag sem ég svaf mjög lítið og alveg augljóst af hverju það kom.“
Þórhildur lítur björtum augum fram á veginn og ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Hún ræðir einnig um tímabundna flutninga fjölskyldunnar til Patreksfjarðar og róna sem því fylgir.
Þórhildur heldur úti vinsælu Instagram-síðunni Sundur og saman og samnefndu hlaðvarpi.