fbpx
Þriðjudagur 18.febrúar 2025
Fókus

Ragnar Freyr læknir: „Allir þessir sjúkdómar verða verri ef svefninn er ekki í lagi“

Fókus
Þriðjudaginn 18. febrúar 2025 09:21

Ragnar Freyr læknir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir segist ganga stoltur frá verkefni sínu sem yfirmaður göngudeildar Covid. Ragnar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að það að vinna við að hafa líf fólks í höndunum geti verið erfitt. Jafnvel þó að læknar hafi gert allt sitt sé mjög erfitt að horfa upp á sjúklinga versna af sjúkdómum eða deyja.

„Þegar maður er í þeirri stöðu að vera með líf fólks í höndunum vonar maður alla daga að maður séu nógu góður í starfinu sínu til að geta hjálpað fólki í gegnum erfiðleika. Það er rosalega erfitt þegar illa fer, þó að maður hafi gert sitt allra besta. Það er hluti af starfinu að það fer ekki alltaf allt vel. Stundum fara hlutirnir illa þó að maður hafi reynt allt sitt og það er gríðarlega erfitt og getur tekið mikið á. Maður lærir að takast á við það, en það er alltaf rosalega sárt ef sjúklingarnir manns verða verri af veikindum eða ef þeir deyja,“ segir hann.

Göngudeild Covid

Ragnar hefur um árabil bæði starfað sem sjálfstætt starfandi læknir, en einnig inni á Landsspítalanum. Hann fékk það verkefni að vera yfirmaður göngudeildar Covid á fordæmalausum tímum og segist einlæglega þeirrar skoðunar að það verkefni hafi heppnast mjög vel.

„Covid göngudeildin er eitthvað sem ég tók þátt í að byggja upp ásamt öðrum og það er dæmi um mjög vel heppnað verkefni. Þá er ég bara að tala um Covid göngudeildina. Ég átta mig á því að fólk hefur alls konar skoðanir á aðgerðum hins opinbera í heild. En þetta tiltekna verkefni var bæði mjög gefandi en líka krefjandi. Það var ömurlegt en frábært á sama tíma. Við reistum beinlínis göngudeild á einni viku og hún virkaði. Öll tölfræðileg gögn sýna að þetta verkefni dró verulega úr væntum innlögnum og þar með skaða í heild. Þarna fengu heilbrigðisstarfsmenn að vera með skapandi lausnir og stýra sjálfir. Við sýndum það að við gátum það þegar okkur var leyft að vinna vinnuna okkar eins og við vildum,“ segir Ragnar og heldur áfram:

„Ég ætlaði ekki að fara að tala mikið um Covid í þessum þætti, en mín skoðun er sú að margir hafi gleymt því hvaða hætta var aðsteðjandi um mánaðarmótin febrúar/mars 2020. Það dóu 6 þúsund manns bara í Bergamó á Ítalíu á sex vikum. Það búa 120 þúsund manns í borginni og 500 þúsund í öllum sveitunum í kring. Við eigum 26 gjörgæslurými. Við þurfum að spyrja okkur hvað gerist í kerfi þar sem öll gjörgæslurými eru full og allar öndunarvélar uppteknar. Út frá þessu voru allar okkar ákvarðanir teknar og fólk má ekki gleyma því. Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en ég er á því að okkur hafi tekist mjög vel til miðað við allar forsendur.”

Sjálfstætt starfandi læknar

Ragnar hefur talað talsvert um heilbrigðiskerfið á Íslandi opinberlega og það hagræði sem hljótist af því að ýta undir sjálfstætt starfandi lækna.

„Það hefur verið einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á Íslandi í meira en 100 ár. Það hafa alltaf verið sjálfstætt starfandi læknar á Íslandi og umræðan um þessi mál er oft mjög skökk. Sjúklingar sem koma til sjálfstætt starfandi lækna eru eins tryggðir og þeir sem fara inn í opinbera kerfið. Það vill enginn á Íslandi að kerfið okkar verði eins og í Bandaríkjunum og það er enginn af kollegum mínum með neinn áhuga á því að við búum til kerfi þar sem hinir ríku borga sig framfyrir hina. En sjálfstætt starfandi læknar eru mjög góðir í að veita mikið af ákveðinni þjónustu fyrir minna fjármagn ef þeir eru nýttir rétt. Það er beinlínis best fyrir Landsspítalann okkar ef sjálfstætt starfandi læknar og einkaframkvæmd geta létt á spítalanum. Þá getur hann betur kjarnað sitt hlutverk og sinnt því sem hann á að sinna.

En það er búið að sá endalaust af efasemdafræjum í opinberri umræðu og af stjórnmálamönnum. Umræðan hefur oft verið færð á miklar villigötur, en í mínum huga ættum við öll að geta verið sammála um að lykillinn að lausninni sé að besta bæði opinbera kerfið og sjálfstæða starfsemi lækna. Þannig virkar kerfið best og skattpeningarnir nýtist eins vel og mögulegt er,” segir Ragnar, sem segir ekkert launungarmál að heilbrigðiskerfi séu orðin þyngsti útgjaldaliður margra þjóða og Ísland þar engin undantekning:

„Heilbrigðiskerfi er í eðli sínu mjög flókið. Hver einasti sjúklingur er einstakur og þess vegna er alls ekki einfalt að búa til hið fullkomna kerfi. Ofan á það bætist svo gríðarleg aukning í lífsstílssjúkdómum og meira ef eldra fólki, sem þýðir að heilbrigðiskerfi víða um heim eru orðin gríðarlega þung í rekstri. Við höfum augljóslega haft kerfið of mikið þannig að kerfið tekur við fólki eftir að skaðinn er skeður. Sjúkdómakerfi en ekki heilbrigðiskerfi. En á meðan við vindum ofan af því þurfum við í raun að gera allt. Bæði auka við allt sem snýr að lýðheilsu, hreyfingu, næringu og svefni og forvarnir. En að sama skapi verðum við að efla eins og við getum að vinna með fólkið sem þegar er komið með sjúkdóma. Ef við ætlum að ná árangri verðum við að gera bæði í einu.”

Svefninn mikilvægur

Ragnar segist telja að við sem samfélag þurfum að gera allt sem við getum til þess að vekja fólk til vitundar um að taka ábyrgð á hlutum sem snúa að eigin heilsu. Eitt af því sem hann nefnir í þættinum er mikilvægi svefns.

„Ég segi oft við skjólstæðinga mína að það verði allt verra ef svefninn er ekki í lagi. Það skiptir engu máli hvað hrjáir þig. Hvort sem það er gigtarsjúkdómur, hjartavandamál, langvinnir verkir, kvíði eða þunglyndi, þá verða allir þessir sjúkdómar verri ef svefninn er ekki í lagi. Þú þolir allt miklu verr, allt álag, áreiti og áskoranir í lífinu. Það er ótrúlega mikilvægt að sinna svefninum vel. Halda reglulegri rútínu og virkilega leggja sig fram um að hafa þessa hluti í eins miklu lagi og mögulegt er. Eins er mikilvægt að fólk sem er að kljást við kvilla og sjúkdóma vinni með náttúrunni. Hvort sem það er birtustig, veðurfar eða jafnvel loftþrýstingur. Samfélagið okkar ætlast til þess að við eigum að vera eins allt árið, sem er í raun mjög furðulegt, miðað við hvað það er gríðarlegur munur á árstíðunum á Íslandi. Það er ekki endilega eðlilegt að vinnustaðir og skólar byrji á sama tíma á dimmasta tíma ársins eða þeim bjartasta. Hluti af því að vera eins heilbrigður og mögulegt er, er að skilja eigin líkama og gera réttar tengingar til þess að geta lifað eins góðu lífi og mögulegt er,“ segir Ragnar, sem segir mikilvægt fyrir lækna að raunverulega hlusta á skjólstæðinga sína og gefa sér að upplifanir fólks séu sannar og réttar:

„Það sem fólk segir manni er ekki rangt. Þegar fólk segir manni sínar upplifanir á maður sem læknir að ganga út frá því að það sé að segja satt. Það er mitt sem læknis að reyna að skilja hvað þau eru að reyna að segja mér. Það heppnast auðvitað ekki alltaf, en það er mikilvægur hluti af starfi lækna.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Ragnar og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Hvað er Google Lens?

Fræðsluskot Óla tölvu: Hvað er Google Lens?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þórhildur var bara að leita að bólfélaga þegar hún kynntist Marcel – Aðalatriðið á bak við gott kynlíf

Þórhildur var bara að leita að bólfélaga þegar hún kynntist Marcel – Aðalatriðið á bak við gott kynlíf
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvernig þau halda neistanum gangandi eftir 18 ár: Opið samband eykur spennu og forvitni

Hvernig þau halda neistanum gangandi eftir 18 ár: Opið samband eykur spennu og forvitni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Blóði drifinn og óljós uppruni Valentínusardagsins – Hýðingar, heiðingjar og aftökur

Blóði drifinn og óljós uppruni Valentínusardagsins – Hýðingar, heiðingjar og aftökur