Netverjar deila gjarnan sögum af ýmsum sigrum og ósigrum á samfélagsmiðlinum Reddit, þá gjarnan í skjóli nafnleyndar. Stundum eru þessar sögur í raun bara æfing í skapandi skrifum en stundum eiga þær sér stoð í raunveruleikanum. Miðillinn Newsweek las skemmtilega sögu á miðlinum á dögunum og ákvað að hafa samband við höfund hennar sem staðfesti að hann væri raunverulegur einstaklingur sem væri að greina frá raunverulegri reynslu sinni.
Jeff, sem ákvað að láta eftirnafns síns ekki getið, er frá Washington og ákvað að hafa sérstakt símanúmer sem hann notar til að sanna á sér deili á netinu án þess að þurfa að eiga við ruslpóst, svikapósta og annað slíkt sem gjarnan fylgir því þegar gagnaleki hefur átt sér stað frá fyrirtækjum sem hafa símanúmer á skrá hjá sér. Hann valdi sér sniðugt símanúmer með einfaldri talnaröð sem hefur svo komið honum í koll. Sumir stunda það að skrá niður fölsk símanúmer þegar vefsíður krefjast slíkra upplýsinga. Jeff, til mikillar mæðu, hafa margir óvart, sem og viljandi, skráð númer hans niður í slíkum tilvikum.
Meðal annars hefur rignt yfir hann staðfestingum frá hótelum, veitingastöðum, snyrtistofum og öðrum þjónustuveitendum sem hann hefur ekki komið nálægt. Hann veitti því eftirtekt að greinilega voru nokkrir einstaklingar ítrekað að gefa upp hans númer svo hann ákvað loks að hafa samband við þetta fólk og biðjast vægðar. Viðbrögðin voru þó dræm og sumum virtist vera alveg sama um það að þau væru að valda ókunnugum og saklausum aðila óþægindum.
„Flest tóku vel í skilaboðin frá mér en aðrir brugðust ókvæða við og sögðust ætla að gera bara það sem þeim sýndist. Svo ég fór að breyta aðgangi þeirra að Verizon, hótelbókunum þeirra, bókunum á veitingastöðum og ég jafnvel pantaði viðbótarþjónustu fyrir þjónustuskoðun sem einhver hafði bókað fyrir ökutæki sitt. Þetta varð orðið svolítið rætið af mér, ég viðurkenni það, en leiti þeirra hafði áhrif á lífsgæði mín með þessu stöðuga áreiti.“
Hann tók eftir því í síðustu viku að einhver hafði notað símanúmer hans til að bóka borð á veitingastað á sjálfum Valentínusardeginum. Jeff ákvað að hefna sín. Um var að ræða frekar fínan og vinsælan mexíkóskan veitingastað. Jeff ákvað að afpanta borðið en bíða með það fram á síðustu stundu.
Hann beið því þolinmóður.
„Ég fékk annað SMS á sjálfan Valentínusardag þar sem sagði: Sjáumst bráðum þegar þið mætið í mat klukkan 18. Þá lét ég til skarar skríða.“
Hann afpantaði borðið rétt fyrir 18 og segist sannfærður um að þannig hafi parið setið eftir með sárt ennið þegar Valentínusar-áformin fóru út um þúfur og of seint að fá annað borð.
„Jæja, félagi, kærastan þín á eftir að verða brjáluð að þú varst of latur til að nota þitt eigið símanúmer því plönin ykkar í kvöld eru úr sögunni. Gleðilegan Valentínusardag, fíflið þitt. Enginn mexíkanskur matur fyrir þig.“
Fyrir vikið hlaut Jeff mikið lof enda ekkert nema ókurteisi að gefa upp falskt númer þegar fólk er að panta sér borð á veitingastað. Þetta par átti þetta því fyllilega skilið. Jeff segir að viðbrögðin hafi komið sér á óvart og hefur skemmt sér konunglega að lesa athugasemdir við færslu sína og finna allan stuðninginn.
„Þetta eru búnir að vera stórskemmtilegir dagar undanfarið, til að vera hreinskilinn. Sumir deildu fyndnum sögum og aðrir deildu mjög fallegum frásögnum.“
Sumir voru þó ekki hrifnir. Einn skrifaði:
„Færsluhöfundur er frekar mikill skíthæll fyrir þetta. Það eru margar ástæður fyrir því að fólk gefur upp gervinúmer. Einhver gæti verið á skipta um síma og að bíða eftir að fá nýtt símkort i póstinum, eða þá að hann hefur gleymt nýja númeriu sínu. Kannski er einhver að deila símanum með maka sínum og vildi koma á óvart. Að eyðileggja Valentínusardag fyrir tveimur einstaklingum bara því þú ert ömurleg manneska er aumkunarvert.“