Helgi var sjarmatröll frá fæðingu, með stórt bros og mikill listamaður.
Hann var nemandi sem passaði ekki inn í boxið sem skólakerfið býr til fyrir börn þrátt fyrir að vera mjög klár.
„Ég man svo vel eitt sinn þegar hann var með íslenskukennara af gamla skólanum. Ef þú kunnir ekki ljóð utan af þá varstu ekki nógu góður. Það var próf og allir nemendur fengu próf í hendurnar nema Helgi, kennarinn sagði að það tæki því ekki,“ segir Lísa.
Helgi byrjaði að fikta við neyslu þegar hann var um sextán ára gamall, hann fann einhverja ró og var á flótta, eins og flestir.
Á einum tímapunkti flutti Lísa og fjölskylda til Noregs og til að fá Helga með fór hann í Lýðháskóla en þaðan flutti hann til Óslóar.
„Hann flutti svo og fór að leigja með vini sínum. Í Ósló fór hann beina leið inn í undirheimana þar, fór að selja og nota mikið,“ segir hún.
Sama hvað gekk á í lífi Helga þá var hann náinn mömmu sinni þó samskiptin væru mismikil.
Helgi fór í meðferð á Hlaðgerðarkot og var í nokkra mánuði. „Þegar vinur hans sem var með honum þarna reyndi að fá hann til að vera einn mánuð í viðbót sagðist hann verða að komast heim að elda fyrir mömmu. Hann náði að halda sér í einhverja mánuði eftir það,“ segir hann.
Tveimur árum fyrir andlát Helga lenti hann í því að lyftara var ekið á bakið á honum í vinnu svo hann meiddist á baki.
„Þarna misstum við hann. Hann fékk uppáskrifað morfín hjá lækni sem hann leitaði til og þá var ekki aftur snúið í raun,“ segir hún.
„Hann sagði mér að þetta væri upphafið að endinum,“ segir Lísa þegar hún rifjar upp tíma sem þau mæðgin áttu á bráðamóttöku nokkrum mánuðum fyrir andlátið.
„Ég er svo þakklát fyrir að sonur minn hafi fengið að deyja með reisn, inni á spítala, umvafinn þeim sem elskuðu hann. Ástvinir fólks með fíknivanda fara á mis við þetta og það finnst mér hræðilegt.“
Lísa hefur lítið sem ekkert geta unnið eftir að Helgi lést. „Þetta er svo stór bremsa,“ segir hún.
„Við verðum að setja peninga í þennan málaflokk því annars mun aldrei neitt breytast. Helgi var aðeins þrítugur, átti allt lífið fram undan og verst þykir móður hans að hugsa til þess hversu lengi systkini hans munu þurfa að lifa án hans því söknuðurinn er mikill.“