Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur beinir þeim eindregnum viðvörunarorðum til menntaskólakennara landsins og annarra sem starfa við fræðslu að vara sig á því að búið er að breyta vefslóð menningarvefsins Starafugls, sem hann ritstýrði, en gamla vefslóðin hefur verið tekin yfir af aðilum sem ekki er hægt að segja að séu að bjóða upp á mjög menningarlegt efni.
Eiríkur skrifar í færslu á Facebook:
„Athugið kæru vinir Starafugls. Á dögunum fór ég í harðvítugar sparnaðaraðgerðir og sagði upp léninu starafugl-punktur-is, sem nú hefur verið keypt af einhverjum útlendum klámkóngum sem birta þar nú sitt eigið menningarefni, ívið sjónrænna en það sem þar var fyrir. Gamla efnið er enn á netinu en nú á starafugl.norddahl.org. Sérstaklega vil ég beina því til menntaskólakennara og annarra landsins fræðara að uppfæra hlekkina í glærum sínum áður en frekari glundroði hefst af. Með innvirðulegum kveðjum frá uppgjafaritstjóra.“
Starafugl var starfræktur á árunum 2014-2020. Á vefnum var birt margs konar efni tengt menningu og listum, t.d. fréttir, gagnrýni, viðtöl og greinar en einnig voru birt frumsamin ljóð sem fólk gat sent inn.
Þótt vefurinn hafi ekki verið starfræktur í 5 ár er allt efnið enn aðgengilegt, á nýju vefslóðinni, en það er ekki óalgengt að þegar hætt er að uppfæra vefi að efnið sem þar er hverfi alfarið úr netheimum og verði engum aðgengilegt. Það hlýtur því að teljast kennurum, nemendum, áhugamönnum og fræðimönnum ánægjuefni að þetta hafa ekki orðið örlög Starafugls.