Brynja Dan er landsþekkt athafnakona sem komið hefur víða við. Hún stofnaði söluvefinn 1111.is, hún á og rekur Extraloppuna en á sama tíma hefur hún líka látið sig málefni barna varða og þá sérstaklega barna sem gengið hafa í gegnum áföll, líkt og ættleiðingar, skilnaði og fráföll foreldra. Allt lífsreynslu sem Brynja þekkir af eigin raun. Brynja er gestur Einars Bárðar í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Einmitt. Hún og Einar fara um víðan völl í samtalinu og Brynja er hispurslaus í svörum.
Eins og kom fram í þáttunum Leitin að upprunanum er Brynja ættleidd hingað til Íslands frá Sri Lanka. Íslenskir foreldrar hennar skildu þegar hún var unglingur og í framhaldi af því tók faðir hennar eigið líf og aðeins örfáum árum síðar veiktist móðir hennar og lést.
„Ég er ein af þeim heppnu,“ segir hún um ættleiðinguna sína og líkir því við prinsessuævintýri á sama tíma og öll þessi áföll hafi markað hana djúpri áfallastreitu.
„Ég er alin upp við að það er horft á mig. Ég er alveg meðvituð um það að þegar ég labba inn í Hagkaup í Garðabæ þá er ég eina sem er lituð þar,“ segir hún þegar talið berst að því að vera alin upp með annan hörundslit en hvítan á Íslandi.
„En ég breytist í eitthvað annað ef þetta beinist að stráknum mínum. Honum var til dæmis sagt að snáfa aftur upp í tré á Rey Cup mótinu í fyrra“.
Þá hafi það verið erfið lífsreynsla að fá systir hennar í heimsókn til Ísland árið 2017 í framhaldi af þættinum Leitin að upprunanum.
„Við þurftum að sýna fram á að hún ætti eignir og peninga í sínu heimalandi þannig að hún væri ekki að koma hingað til að vera. Ekki það hún er í doktorsnámi í Ástralíu í dag þannig að við hefðum verið heppin ef hún vildi setjast hér að.“
Þannig lagði systir hennar á sig 48 tíma ferðalag til að heimsækja Brynju í fimm daga því ekki fékkst leyfi yfirvalda fyrir lengri heimsókn.
„Yfirvöld virtust hafa lítinn áhuga á að „sitja uppi með hana“ ef svo mætti segja. Af því að við tilkynntum hana sem skyldmenni þá mátti hún bara vera í fimm daga. Hefðum við skráð hana sem ferðamann þá hefði hún fengið að vera í þrjá mánuði,“ lýsir Brynja og bætir við að þessir fimm dagar hefðu þó aðeins fengist með herkjum. Brynja segir að hún hafi orðið virkilega reið við þessa lífsreynslu alla.
„Ég ímynda mér að þetta væri ekki jafn erfitt í dag ef hún kæmi í aðra heimsókn á forsendum þess að hún hefur komið einu sinni áður en þetta er ekki ferðalag sem fólk leggur oft á sig um ævina.“
Brynja hefur síðustu ár tileinkað líf sitt Extraloppunni í Smáralind, hringrásarverslun sem notið hefur mikilla vinsælda undir hennar stjórn. Í síðustu viku gekk Brynja frá kaupum á hlut meðeigenda sinna þannig að nú er hún ein eigandi að Extraloppunni.
Brynja opnaði líka söluvefinn 1111.is sem er helgaður 11. október, „Singles-Day“ þar sem notendur geta séð öll helstu tilboð þess dags á einum stað. Hún segir það alveg takast á í sér að vera í framlínu hringrásarinnar en um leið vera með 1111.is en á seinni árum líti hún á 1111.is sem stað þar sem fólk getur gert góð kaup en sé ekki að nota hann til að kaupa „bara eitthvað“ eins og hún segir.
„Ég er farin að sjá sumar vörurnar koma aftur og aftur inn.“ Sérstaklega segir hún þetta eiga við um dýr vönduð föt og fylgihluti sem fólk kaupir notað, notar það í einhvern tíma og kemur svo og selur á svipuðu verði aftur.
„Sjálf kaupi ég aldrei vörur á Temu, Shine, Ali Express eða Primark,“ segir Brynja þegar talið berst að almennri verslun og þróun hennar. Mikið af þessum vörum enda ónotaðar á safnhaugum vegna lélegra gæða eins og komið hefur fram í fréttum.
„Svo er ég líka mikið að velta fyrir mér rafmagnsbílamálunum. Eru börn á Indlandi að urða í geymasýru úr þessum bílum“. Þannig sé margt miður fallegt í stóru myndinni þegar kemur að neyslu og umhverfismálum.
Það má hlusta á samtalið í heild sinni hér.