Kanadíski tónlistarmaðurinn Bryan Adams kemur til landsins í apríl og heldur tónleika í Hörpu. Tónleikarnir eru hluti af Bare Bones tónleikaferðalagi hans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu Live.
Tónleikarnir hefur í Eldborgarsalnum þann 21. apríl. Almenn sala hefst á föstudag klukkan 11 en póstlistaforsala hefst á fimmtudag klukkan 11.
„Þetta er einstakt tækifæri til að sjá þessa stórstjörnu í mikilli nánd á innilegum tónleikum, þar sem hann kemur fram ásamt píanóleikara,“ segir í tilkynningunni. „Bryan Adams hefur ferðast um heiminn í nærri fjóra áratugi. Tónlist hans hefur náð fyrsta sæti á vinsældarlistum í yfir 40 löndum og hann hefur hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal Grammy verðlaun og American Music Awards, auk þess að hafa verið tilnefndur þrisvar til Óskarsverðlauna og fimm sinnum til Golden Globe-verðlauna. Hann er einnig Companion of the Order of Canada.“
Í boði eru eru sex verðsvæði og miðar kosta frá 8.990 kr.
Bryan Adams kom síðast til landsins árið 2014 og hélt þá tvenna tónleika í Hörpu. Hann hélt einnig tónleika í Laugardalshöll árið 1991.