Þórhildur er gestur í Fókus, spjallþætti DV, og ræðir um hvernig þau halda neistanum gangandi eftir öll þessi ár og hvernig opið samband þeirra spilar þar inn í.
Þórhildur ræðir þetta nánar í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Þórhildur og Kjartan kynntust árið 2007. Árið 2017 tóku þau ákvörðun um að opna sambandið og hefur Þórhildur talað opinskátt um það í nokkur ár. Hún heldur úti vinsælli Instagram-síðu Sundur og saman og samnefndu hlaðvarpi.
Það gerist þó eiginlega alltaf þegar hún kemur fram í fjölmiðlum að einhver skrifi athugasemd á borð við: „Þau munu aldrei endast.“ Við spurðum Þórhildi hvað árin þurfa eiginlega að vera mörg svo fólk hætti að segja þetta og taki þeim alvarlega.
„Mér er svo sem alveg sama,“ segir Þórhildur og hlær. „Skiptir mig engu máli.“
„Ég skil það bara mjög vel að fólki finnist þetta skrýtið og átti sig ekki á þessu og það er líka allt í lagi. Ég er engan veginn að segja að þetta sé það sem allir ættu að gera, mér dytti það ekki í hug,“ segir hún.
En átján ár eru langur tími, hvernig halda þau neistanum gangandi?
„Ég myndi segja að losna við alla gremju, með því að segja sannleikann og vera heiðarleg við sjálfa þig og makann þinn. Vera ekki föst í einhverjum hlutverkaleik eða feluleik, reyna að geðjast eða eitthvað svoleiðis. Það alveg drepur allan neista. Ég myndi segja að það sé stórt skref, að vera raunverulega heiðarleg,“ segir hún.
Hún segir að það viðhaldi einnig ákveðinni spennu og neista að vera í opnu sambandi. Það sé meiri forvitni og frelsi á sama tíma. Hún útskýrir það nánar í spilaranum hér að ofan á mínútu 3:00.
Kjartan var gestur Þórhildar í hlaðvarpinu Sundur og saman til að ræða um opið samband þeirra í fyrra, en Þórhildur hefur því oft fengið að heyra að hún hljóti að vera að „pína“ Kjartan til að vera í opnu sambandi en hjónin blésu á þá kjaftasögu fyrir fullt. Þau fóru yfir alla sambandssöguna og ræddu um hvað hafi breyst síðan þau opnuðu sambandið og hvað hafi komið þeim á óvart.
Sjá einnig: Kjartan er ekki neyddur til að vera í opnu sambandi – „Myndi ekki vilja fara til baka“
Það er margt spennandi fram undan hjá Þórhildi, en auk þess að bjóða upp á sambandsmarkþjálfun er hún að fara út með hóp kvenna í Fullvalda retreat. Þetta er í þriðja skipti sem hún heldur slíkan vikulangan viðburð og verður hann á Spáni í sumar að þessu sinni. Hún ræðir þetta frekar í lok þáttarins en svo má nálgast meiri upplýsingar á Instagram-síðu hennar Sundur og saman.
Fylgdu henni á Instagram eða hlustaðu á Sundur og saman á Spotify.