Forsölumiðar seldust hratt upp á tónleika bandarísku rokksveitarinnar The Smashing Pumpkins í morgun. Ekki verður hægt að bæta við aukatónleikum.
Forsalan hófst klukkan 10 í morgun og hefur DV heimildir fyrir því að margir fulltrúar X kynslóðarinnar hafi verið með sveitta efrivör að ná miðum. Klukkan tæplega 11 barst tilkynning frá tónleikahaldaranum Sena Live um að uppselt væri í forsölu.
„Þrátt fyrir talsvert álag í morgun gekk allt vel fyrir sig. Stafræn röð verður notuð aftur á morgun til að stjórna umferð inn á vefsíðuna og vernda miðasölukerfið fyrir álagi,“ segir í tilkynningu.
Líkt og í morgun mun almenn sala tónleikamiða hefjast klukkan 10 en klukkan 9:30 opnar fyrir skráningu í biðröð. Fólki er raðað af handahófi í biðröðina en þeir sem skrá sig eftir klukkan 10 fara aftast í röðina.
Tónleikarnir eru haldnir í Laugardalshöll þriðjudaginn 26. ágúst. Hljómsveitin hefur aldrei spilað á Íslandi áður og sjaldnar í Evrópu en margar aðrar sveitir.