Philadelphia fór með öruggan sigur af hólmi, 40-22, og eftir leik skaut CJ Gardner-Johnson, einn af stjórnuleikmönnum liðsins, á Kelce á samfélagsmiðlum. Það fór ekki vel í aðdáendur Taylor Swift sem gripu til þess ráðs að dæla inn á netið neikvæðum umsögnum um veitingastað sem móðir CJ, Delatron Johnson, rekur í Flórída og heitir Kings Grill.
„Hræðileg þjónusta og maturinn undir meðallagi,“ sagði til dæmis í einni umsögninni.
New York Post fjallar um málið og segir Delatron að hún hafi vart vitað hvaðan á sig stóð veðrið þegar heill haugur af fólki byrjaði að gefa staðnum hennar 1 stjörnu. Hún fékk síðar upplýsingar um hvað væri í gangi og að aðdáendur Swift og Kelce hefðu þarna verið að verki.
Delatron segist ekki ætla að taka þetta nærri sér enda hafi staðurinn verið lokaður síðan 25. janúar síðastliðinn. „Við erum að selja staðinn þannig að þetta hefur engin áhrif á okkur,“ segir hún.
Delatron segir að kjafturinn á syni hennar hafi vissulega stundum komið honum í vandræði.
„Við höfum átt við þetta síðan hann var barn,“ segir hún og bætir við að sonur hennar hafi ekkert breyst. „En hann getur bakkað upp það sem hann segir og ég get það líka,“ segir hún.