Nú er síðasti liður vitundarvakningar Krafts stuðningsfélags farinn í loftið þar sem prjónarar um allt land eru hvattir til að sýna kraft í verki með því að prjóna ullarsokka fyrir ungt fólk sem greinist með krabbamein, en á hverju ári greinast um 70 ungir einstaklingar með krabbamein.
Sokkarnir fara í gjafapoka sem Kraftur gefur öllum þeim sem greinast með krabbamein á aldrinum 18–40 ára. Gjafapokinn inniheldur allskyns nytsamlegar vörur og fræðslu fyrir það verkefni sem nýgreindur einstaklingur stendur frammi fyrir. Gjafapokann fær fólk afhentan á krabbameinsdeildunum þegar það mætir í meðferð eða í fræðsluviðtal til hjúkrunarfræðings.
„Gjafapokinn er oft fyrsta snerting okkar hjá Krafti við félagsmenn og tölum við oft um að með gjafapokanum bjóðum við fólk velkomið í klúbbinn sem enginn vill vera í“, segir Þórunn Hilda Jónasdóttir, viðburða- og þjónustustjóri Krafts.
Uppskriftin af sokkunum sækir innblástur í hönnun listakonunnar Tótu Van Helzing, eins og fjáröflunarvara Krafts 2025, Lífið er núna-húfan. Tóta var félagsmaður hjá Krafti en hún greindist með illvígt krabbamein í byrjun árs 2021 þá nýorðin 31 árs gömul og lést í desember sama ár.
„Þetta er í annað skiptið sem við hjá Krafti förum í prjónaverkefni sem þetta, en síðast var það árið 2020. Þá höfðum við hreinlega ekki undan því að taka á móti sokkum, sem var algjörlega frábært en nú er sá lager að klárast hjá okkur. Því var tilvalið að fara núna aftur af stað með verkefnið tengt vitundarvakningunni og sækja innblástur í hönnun Tótu Van Helzing. Það er einlæg von okkar að prjónarar um allt land verði jafn til í þetta verkefni með okkur nú og áður“, segir Þórunn.
Uppskriftina af sokkunum má finna á kraftur.org og er hlaðið niður ókeypis.
Einfalt að skila sokkunum þökk sé N1 og Dropp
Til að koma tilbúnum sokkum til Krafts, geta prjónarar skilað sokkunum á næstu N1 stöð um allt land og sjá N1 og Dropp um að koma sokkunum til Krafts.
Starfsfólk hjá Krafti kemur sokkunum svo til þeirra sem á þurfa að halda.