Ónefndur einstaklingur varpaði nýlega fram þeirri spurningu á samfélagsmiðlinum Reddit hvað heimurinn hefði farið á mis við ef Ísland hefði aldrei verið til. Í svörunum kennir ýmissa grasa en almennt eru svarendur sammála um að saga og menning heimsins hefði litið töluvert öðruvísi út ef aldrei hefði verið neitt Ísland.
Til dæmis er bent á heimurinn hefði þá farið á mis við tónlist tónlistarkonunnar Laufeyjar Lín Jónsdóttur auk tónlistar Bjarkar og Sigur Rósar
Einnig er bent á að þá hefði hið mikla bókmenntaverk Hringadróttinssaga (e. Lord of the Rings) eftir J.R.R. Tolkien líklega aldrei orðið til enda er það vitað að verkið er undir töluverðum áhrifum frá Íslendingasögunum og íslenskum fornritum um norræna goðafræði.
Annar aðili vill ganga enn lengra og segir að án þessa hefði aldrei orðið neinn fantasíuskáldskapur eins og Hringadróttinssaga til.
Í öðru svari er bent á að ofurhetjukvikmyndir hefðu orðið mun fátæklegri án íslensku fornritanna þar sem þá hefði vitneskja um norræna goðafræði orðið mun fátæklegri.
Í því samhengi minnir annar aðili að án fornritanna hefði þekking á sögu Norðurlandanna til forna orðið lítil sem engin.
Ekki er minnst á það í þessari umræðu en einnig má geta þess að eitt helsta stórvirki tónskáldsins Richard Wagner, Niflungahringurinn, er undir miklum áhrifum frá Íslendingasögunum og án þeirra hefði verkið aldrei orðið til.
Sömuleiðis er minnst á í umræðunni að án gosmóðu frá Íslandi og uppskerubrests í kjölfarið hefði aldrei verið gerð bylting í Frakklandi 1789 en það hefur þó verið umdeilt meðal sagnfræðinga.
Einn aðili minnir á að hin strategíska staða á Norður-Atlantshafi hefði verið önnur ef ekkert Ísland hefði verið þar og því hefðu átök stórveldanna tekið á sig öðruvísi mynd.
Einnig er minnst á ýmislegt annað í umræðunni um það sem heimurinn hafði farið á mis við ef aldrei hefði verið neitt Ísland. Til dæmis hákarl, brennivín og skyr en einn Íslendingur sem leggur orð í belg er þó með enn einfaldara svar:
„Mig.“