fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fókus

Unnsteinn Manuel hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2024

Fókus
Fimmtudaginn 9. janúar 2025 19:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmaðurinn og handritshöfundurinn Unnsteinn Manuel Stefánsson hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2024, en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum í dag.

Halla Tómasdóttir, forseti, afhenti verðlaunin sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík. Eins fær Unnsteinn eina og hálfa milljón króna í verðlaunafé.

Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Rio Tinto á Íslandi, álverið í Straumsvík, hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000 og forsetinn hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna.

Í tilkynningu segir að Unnsteinn hafi komið víða við í listaheiminum á Íslandi. Lengst af var hann þekktastur sem meðlimur í hljómsveitinni Retro Stefson en auk þess hefur hann gefið út tónlist undir eigin nafni og í samstarfi við fleiri. Undanfarin ár hefur hann svo menntað sig á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands og handritaskrifum fyrir sjónvarp í Kvikmyndaskólanum í Berlín.

Hann hefur komið að framleiðslu, stjórn og umsjón efnis fyrir sjónvarp um árabil. Þar með taldar eru stórar alþjóðlegar sjónvarpsútsendingar á Íslandi. Hann hefur eins tekið þátt í ýmsum verkefnum á sviði leikhúsa sem tónskáld, tónlistarstjóri, hljóðhönnuður og handritshöfundur. Þessa dagana er hann að vinna að sýningunum Lukku í Þjóðleikhúsinu og Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu.

Hann er margverðlaunaður fyrir störf sín. Meðal annars hefur hann í þrígang hlotið Edduverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin. Hann hlaut svo Grímuverðlaunin árið 2023.

Unnsteinn hefur líka lagt áherslu á að miðla þekkingu til yngri kynslóða og hefur frá árinu 2007 kennt börnum á grunn- og framhaldsskólastigi tónlist og tekið virkan þátt í verkefnum sem tengjast ungu fólki og tónlist. Hann hefur frá árinu 2012 verið dómari og virkur þátttakandi í Upptaktinum í Hörpu, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna. Hann kennir námskeið í skapandi hugsun við Háskólann á Bifröst og hefur komið að fleiri verkefnum á sviði menntunar fyrir ungt fólk.

Hann hefur svo lagt ýmsum góðgerðar- og samfélagsverkefnum lið og var meðal annars verndari UN Women á Íslandi, situr í stjórn Barnaheilla og var í ráðgjafarnefnd Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur fyrir hönd borgarstjóra.

Í umsögn dómnefndar segir:

„Á ferli sínum hefur Unnsteinn sýnt fram á ótvíræða listræna hæfileika og fjölhæfni og fundið farvegi til þess að þroskast og takast á við nýjar áskoranir og fjölbreytt verkefni. Hann tekur virkan þátt bæði í menningartengdum verkefnum í ýmsum listgreinum en leggur jafnframt mikilvægum góðgerðar- og samfélagsmálum lið. Þar á ofan miðlar hann af þekkingu sinni og reynslu til yngri kynslóða. Unnsteinn Manuel Stefánsson er verðugur fulltrúi Íslensku bjartsýnisverðlaunanna árið 2024.“

Dómnefndina skipa Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Egill Þór er látinn fyrir aldur fram – Söfnun fyrir ung börn hans – „Vinur sem var alltaf hægt að leita til“

Egill Þór er látinn fyrir aldur fram – Söfnun fyrir ung börn hans – „Vinur sem var alltaf hægt að leita til“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hélt hún hefði pantað fallegt jólaskraut af Temu – „Ég myndi ekki trúa þessu nema ég hefði séð þetta sjálf“

Hélt hún hefði pantað fallegt jólaskraut af Temu – „Ég myndi ekki trúa þessu nema ég hefði séð þetta sjálf“