fbpx
Fimmtudagur 09.janúar 2025
Fókus

Konur gera tilraun til að svara þessari áleitnu spurningu – Hvers vegna eru ungir karlmenn komnir lengra til hægri?

Fókus
Miðvikudaginn 8. janúar 2025 17:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú þróun er að eiga sér stað víða um heim að ungir karlmenn eru farnir að halla sér lengra til hægri í stjórnmálum heldur en konur á sama aldri. Kynjabilið hjá Z-kynslóðinni í Bandaríkjunum í síðustu forsetakosningum þar í landi var töluvert meira heldur en hjá kjósendum af eldri kynslóðum.  Þetta sést skýrt á eftirfarandi mynd sem New York Times birti:

Miðillinn Buzzfeed ákvað að spyrja konur af Z-kynslóðinni álits, hvers vegna þær haldi að karlkyns jafnaldrar þeirra séu komnir lengra til hægri í pólitíkinni. Konurnar sem svöruðu koma af báðum vængjum bandarískra stjórnmála og má sjá þar áhyggjur af stöðu karlmanna í samfélaginu.

Vinstrið fráhrindandi en hægrið móttækilegt

Margar nefna að karlmenn séu týndir í samfélaginu í dag. Konur hafi unnið stóra sigra í jafnréttisbaráttunni og að losa sig undan úreltum hugmyndum um kynjahlutverkin. Á sama tíma eru karlmenn enn fastir í sama farinu. Þeir njóta ekki sömu forréttinda og áður út af kyni sínu og upplifa það sem kúgun. Á sama tíma glíma þeir við raunveruleg vandamál en virðast ekki mega opna sig um þau þar sem jafnréttisbaráttan hafi gert þá að blórabögglum í öllum málum. Þeim finnst vinstrið fráhrindandi því þar fá þeir skilaboðin að þeir séu vandamálið. Þeir halla sér því til hægri þar sem þeir eru boðnir velkomnir og á þá er hlustað.

Nokkrar benda á að nú þegar konur þurfa ekki á þeim að halda viti karlmenn ekki alveg hvað þeir eigi að gera. Þeir eiga erfiðara með að finna vinnu, finna sig ekki í menntakerfinu og fá þau skilaboð að þeir geti ekki stofnað til fjölskyldu nema þeir séu milljónamæringar, í góðu formi og hávaxnir. Það sé að ganga yfir faraldur einmanaleika svo ungir karlmenn fullnægja nú félagslegum þörfum í gegnum Netið. Þar sogast þeir gjarnan í samfélag öfga-hægrisins þar sem þeir eru boðnir velkomnir og sannfærðir um að þeim muni líða betur ef konum sé aftur komið í eldhúsið og hvítum karlmönnum aftur veitt forréttindin sem þeir hafa misst.

Margir karlmenn upplifa sig vanmáttuga. Þeir eru einmana, reiðir og komnir með nóg af því að vera kennt um allt sem miður fer í samfélaginu. Þegar þeir reyna að láta sig málefni vinstri hreyfinga varða þá mætir þeim dómharka og sleggjudómar. Þeir leita því í hópa sem eru tilbúnir að hlusta og skilja þá og í mörgum tilvikum er það hægrið.

Ein skrifar: „Ég áfellist þá ekki þegar svo virðist sem að hinn pólitíski vængurinn hati þá. Ungum mönnum er kennt um mistök sem áttu sér stað áður en þeir fæddust og það eru svo fáar skynsamar fyrirmyndir. Þeir neyðast til að hlusta á öfgamenn á borð við Andrew Tate bara til að finnast þeir vera einhvers virði.“

Vanmátta og komnir með nóg

Dæmi um fleiri svör:

  • „Það eru engin stór vinstrisinnuð hlaðvörp, YouTube-rásir eða samfélagsmiðlar. Faraldur einmanaleikans leiðir til þess að ungu kynslóðirnar uppfylla félagsþarfir í gegnum netið. Íhaldssamir og hægrisinnaðir samfélagsmiðlar, hlaðvörp, YouTube-rásir og skoðanafréttir eru að drottna yfir ungum karlkyns áhorfendum.“ 
  • „Ég held að Trump láti karla upplifa að þeir verði valdamiklir og fái aftur kynferðislega yfirburði ef konum verður komið aftur á „sinn“ stað í samfélaginu. Hvaða aðrar leiðir hafa ungir karlar í samfélaginu til að upplifa sig volduga í dag?“ 
  • „Það eru ekki mörg „góð“ störf eftir. Það hafa ekki allir það sem þarf til að verða læknar eða lögmenn. Heldurðu að 23 ára gaurinn sem vinnur á bensínstöðinni í hverfinu upplifi sig máttugan? Flest ungt fólk er fast í láglaunastörfum og finnst það vera aumingi. Trump býður því aðra útgáfu af samfélaginu þar sem það fær aftur að vera voldugustu og mikilvægustu manneskjurnar í herberginu.“ 
  • „Utan frá séð þá er verst komið fram við gagnkynhneigða hvíta karlmenn í dag. Þessir menn geta ekkert gert rétt. Þeim er sagt að þeir séu allir 100% rasistar, karlrembur og transhatarar. Þeim er sagt að þeir séu hættulegri valkosturinn þegar þeir eru bornir saman við birni. Það eru engin bjargráð fyrir þá. Heimurinn segir þeim að þeir séu vondi karlinn og að þannig viljum við hafa það. Er skrítið að þeir séu að snúa sér þeim sem vilja ekki kenna þeim um allan heimsins vanda?“ 
  • „Ég held að fleiri ungir menn séu að kjósa íhaldið því þeir upplifa að samfélagið hafi kallað þá eitraða nógu lengi. Þeir vilja flokk sem virðir þá og kann að meta þeirra framlag. Flokk sem er ekki bara fyrir konur og kynsegin heldur líka fyrir karla.“ 
  • „Menn eru að færa sig lengra til hægri því nútímafemínismi snýst ekki lengur um jafnrétti heldur um hvort kynið hafi meiri völd.“ 
  • „Karlmenn byggðu upp Bandaríkin en eiga nú að skammast sín bara fyrir það eitt að vera karlmenn. Vinstrið reynir að troða öllum í sama kassann sem er merktur eitraður og ungir menn hafa fengið nóg af því.“ 
  • „Ég sem eldri fulltrúi Z-kynslóðarinnar (verð 28 ára á þessu ári) trúi því að aukna íhaldssemi meðal Z-karlmanna megi rekja til þess að karlmenn, sérstaklega hvítir karlmenn, upplifa sig afskipta í samfélaginu. Í gegnum söguna hefur heimurinn verið hannaður fyrir þá en nú þurfa þeir að leggja á sig þá vinnu sem minnihlutahópar og konur hafa þurft að taka á sig frá upphafi. Þetta geta þeir upplifað sem kúgun þegar þeir eru vanir því að njóta forréttinda.“ 
  • „Margir ungir karlmenn hafa áttað sig á því að konur þurfa ekki á þeim að halda lengur. Þeir sjá að konur geta átt starfsferil, búið einar og verið hamingjusamar án þess að eiga kærasta eða eiginmann. Svo hvers vegna ættu konur að sóa tímanum í karlmann sem kemur illa fram við þær eða gerir ekkert til að bæta lífsgæði þeirra? Fyrir marga menn er auðveldara að segja að konur séu orðnar of heimtufrekar eða kröfuharðar frekar en að læra að vera góður maki. Þeir kunna ekki að meta það að grunnhyggni, eigingirni og leti hafi nú áhrif á möguleika þeirra til að finna sér maka. Svo frábæra lausnin þeirra á þessu er að áfellast konur fyrir að hafa orðið of sjálfstæðar frekar en að átta sig á því að vandinn er í raun að þeir koma ekki nógu vel fram við þær.“ 
  • „Við lifum á tímum þar sem konur, trans fólk og kynsegin eru komin í fleiri valdastöður en nokkru sinni áður og eiga hægara um vik að brjóta niður staðlaðar hugmyndir um kynjahlutverk. Þessu fylgir að cis-karlmenn átta sig nú á því að þeir eru að missa völdin í samfélaginu. Svo í þeirra huga er vit í því að færa sig á þann væng stjórnmálanna sem vill svipta aðra réttindum og frelsi. Við þurfum fleiri karlkyns femínista.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Megi 2025 vera stútfullt af hlátri, skemmtilegum stundum og góðu kynlífi“

Vikan á Instagram – „Megi 2025 vera stútfullt af hlátri, skemmtilegum stundum og góðu kynlífi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég myndi ekki velja mér lífsþjálfa sem aldrei hefur fengið synjun á kortið“

„Ég myndi ekki velja mér lífsþjálfa sem aldrei hefur fengið synjun á kortið“