Fann leynileg skilaboð frá Matthew Perry ári eftir að hann dó
Matthew Perry er enn til staðar fyrir Lisu Kudrow. Leikarinn lést í október 2023.
Lisa Kudrow lék með Perry í vinsælu gamanþáttunum Vinir (Friends). Hún greindi frá því, í spjallþættinum The Drew Barrymore Show, að leikarinn hafi gefið henni fallega gjöf, hann gaf henni „Cooke Time“ kökukrúsina sem var á sviðsmynd Friends en það var ekki fyrr en nýlega sem Kudrow opnaði krúsina og fann þar skilaboð frá Perry.
„Matthew gaf mér þetta eftir síðasta þáttinn af Friends en það er stutt síðan ég fann miðann sem hann skildi eftir fyrir mig,“ sagði Kudrow.
Leikkonan, sem lék Phoebe Buffay í vinsælu þáttunum, sagði að hún hafi horft á þættina í fyrsta skipti eftir að Perry lét lífið.
„Ég hafði aldrei getað horft á þættina því mér fannst of vandræðalegt að horfa á sjálfa mig. En ég gat það fyrir Matthew og ég naut þess að horfa á hann og hversu fyndinn hann var, þannig vil ég muna eftir honum.“