Þriggja ára sambandi fyrirsætunnar Kaiu Gerber og leikarans Austin Butler er lokið. Gerber, sem er 23 ára, og Butler, 33 ára, opinberuðu samband sitt í mars árið 2022. Þau munu hafa ákveðið að skilja í lok árs 2024 samkvæmt miðlum vestanhafs og var Butler ekki með Gerberg og fjölskyldu hennar í fríi fjölskyldunnar í Mexíkó.
Sögusagnir um ástarsambandið hófust í lok árs 2021 eftir að þau sáust ítrekað saman, þremur mánuðum seinna mættu þau saman á rauða dregilinn í árlegu partýi tímaritsins W, W Magazine’s annual Best Performances party.
Ferill Butler fór á flug eftir að hann lék rokkkonunginn Elvis Presley í kvikmyndinni Elvis árið 2022 og fylgdi Gerber sínum manni á Golden Globes þar sem hann vann sem besti leikarinn.
Gerber er vel þekkt, fyrst og fremst sem fyrirsæta, þar sem hún fetar í fótspor móður sinnar, Cindy Crawford, sem var ein af ofurfyrirsætum níunda áratugarins. Faðir Gerber er svo viðskiptajöfurinn Rande Gerber.
Gerber tjáði sig um sambandið við Butler í viðtali við tímaritið WSJ í febrúar í fyrra. Útskýrði hún þar að þau leituðust við að halda sambandi sínu utan sviðsljóssins:
„Í hreinskilni sagt finnst mér svo fáir hlutir í lífi mínu vera einkamál og sambandið er eitt af því sem ég reyni að halda eins mikið fyrir sjálfa mig og hægt er.“