Hulda greindi frá gleðitíðindunum á Instagram með skemmtilegum hætti, en trúlofunarsagan hefst árið 2022.
„Ég er víst ekki þekkt fyrir að vera fyrst til að deila „stórum fréttunum,“ allavega ekki á samfélagsmiðlum. Svo ég ákvað í gamni að byrja þessi skrif í sama dúr og þegar við sögðum loksins frá 8 mánaða bumbubúanum jólin 2022,“ segir Hulda. Þau eiga saman soninn Hjalta sem verður tveggja ára í lok janúar.
„Í byrjun sumars fór Birgir sem sagt á skeljarnar og ég sagði JÁ. Hann var víst raunar búinn að ákveða bæði stað og stund í ársbyrjun 2022 þegar Hjalti var ekki einu sinni orðinn að hugmynd. Hjalti greip þó allverulega inn í tímaplanið hans Birgis en staðurinn stóðst þó og við fengum gullfallegt veður. Hafravatn varð fyrir valinu, en þangað bauð hinn 24 ára gamli (eða öllu heldur ungi) Biggi mér einmitt á okkar fyrsta stefnumót, með poppkorn og kókómjólk (eftir að hafa komist á snoðir um að það væri uppáhaldstvennan mín og ráðfært sig við Gurru).
Í þetta sinn endurtók hann leikinn. Poppið og súkkulaðimjólkin sem Birgir keypti árið 2022 fengu að fljóta með, enda „hið eina sanna“ en þar sem hvort tveggja var útrunnið (og ef satt skal segja, ekki það albesta), þá var hann tilbúinn með brakandi ferskt poppkorn og ískalda og glænýja súkkulaðimjólk líka.“
Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki myndirnar og færsluna hér að neðan.
View this post on Instagram
Hulda og Birgir munu bjóða brúðkaupsgestum upp á popp og kókómjólk. Þau lofa einnig að bíða ekki of lengi. „Hvorki með athöfnina sjálfa né að deila gleðifréttunum. Við kaupum þó kannski hvorki poppið né kókómjólkurfernurnar alveg strax, því eins og Hjalti hefur bæði sýnt og kennt okkur, þá er lífið smá óútreiknanlegt og kemur sífellt á óvart.“
Að lokum segir Hulda:
„Þrátt fyrir að vera yfir tveggja ára poppkókómjólkurtvenna, var hún samt í raun sú besta hingað til. Ég hefði ekki trúað því ég að popp bragðaðist betur með trúlofunarhring á baugfingri en svo er víst raunin.“