Brot úr þættinum má horfa á hér að neðan. Smelltu hér til að horfa á hann í heild sinni eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Erla er heilsumarkþjálfi, ráðgjafi, hlaðvarpsstjórnandi og íþrótta- og ungbarnasundkennari,
Aðspurð hvort hún sé með einhverja þumalputtareglu þegar kemur að mataræði segir Erla: „Það er svolítið gaman að þú skulir spyrja að þessu því mataræðið er akkúrat minn akkilesarhæll. Ég veit nákvæmlega hvað ég á að gera en ég er ekki endilega alltaf að gera það. En það sem er vitað, það er vitað að mikill sykur er ekki góður fyrir okkur, mikið unnar vörur, þessi gjörunnu matvæli, það er svo margt í þessu sem getur annaðhvort raskað þarmaflórunni okkar eða haft áhrif á efnaskiptin okkar, öll þessi efni sem líkaminn veit ekki hvað hann á að gera við. Eitthvað sem var búið til í verksmiðju, þú lest innihaldslýsinguna en skilur ekki eitt orð, þetta eru kannski 20 atriði.“
Erla hvetur fólk til að velja matvæli þar sem það skilur innihaldslýsinguna, eða jafnvel matvæli með enga innihaldslýsingu. „Epli, banani, fiskur, egg, það stendur ekkert utan á því, það er engin innihaldslýsing. Að borða eins hreinan mat og maður getur 80 prósent af tímanum og 20 prósent bara að njóta og leyfa sér. Það er þumalputtareglan mín.“
Erla segir að þetta hefur breyst mikið með árunum „Í nútímasamfélagi… ef þú ferð í matvörubúð, 90 prósent af vörunum voru ekki til fyrir hundrað árum.“
„Svo er verið að markaðssetja svo margt sem heilsuvöru sem er það ekki, heldur gjörunnin matvæli,“ segir hún og nefnir nokkur dæmi: „Eins og prótein pönnukökur, próteinstykki og allir orkudrykkirnir, þetta er eitthvað sem við þurfum ekkert á að halda. Þetta er eitthvað gerviefni sem var búið til.“
Erla ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Fylgstu með Erlu á Instagram, hlustaðu á hlaðvarpið hennar, Með lífið í lúkunum, á Spotify. Erla heldur einnig úti vefsíðunni HeilsuErla.is.