Áslaug ólst upp við alkóhólisma og vanrækslu hjá foreldrum sínum, ásamt yngri bróður sínum. Þau voru tvö á heimilinu en áttu hálfsystkini sem komu í heimsókn.
„Ég varð fyrir kynferðisofbeldi, mér finnst misnotkun og nauðgun ekki það sama, ég tengi þetta tvennt ekki saman,“ segir hún.
Þegar Áslaug var fimm ára gömul segir hún að faðir hennar hafi byrjað að beita hana kynferðislegu ofbeldi.
„Pabbi minn nauðgaði mér í níu ár. Hann byrjaði þegar ég var fimm ára.“
Áslaug segir að móðir hennar hafi verið mjög ung og hafi einnig þurft að þola ofbeldi af hendi föður hennar, en hún hafi einnig sjálf beitt ofbeldi. Hún segir að móðir hennar hafi alltaf verið róleg og drífandi, vel til höfð og enginn hafi sett nein spurningarmerki við hegðun hennar eða heimilisaðstæður.
„Pabbi minn var tónlistarmaður, allir elskuðu hann og hann var hrókur alls fagnaðar,“ segir hún.
„Ég þekki ekki tilfinninguna að treysta og finna öryggi hjá foreldrum mínum.“
Þegar Áslaug fór í sína sjálfsvinnu og þurfti að vinna í fyrirgefningunni þótti henni erfitt að sleppa litlu stelpunni innra með sér.
„Ég þurfti að læra að halda utan um litlu mig og átti oft erfitt með að sleppa henni,“ segir hún.
Sem barn var hún mikið í íþróttum, gerði í raun allt sem hún gat til að vera ekki heima hjá sér.
„Fyrir nokkrum árum fékk ég að heyra að það voru merki frá tólf ára aldri, sem ég var búin að stroka út úr minninu. Ég mætti marin í skólann en gat falið mig á bakvið íþróttir.“
Áslaug segir að á unglingsárunum hafi kynferðisofbeldið orðið verra, meira og sjúkara.
„Ég var orðin svo mikill fangi. Ég var oft lokuð inni með honum heilu dagana og helgarnar,“ segir hún.
Áslaug treysti vinkonu sinni fyrir litlum hluta af því sem hafði gengið á, hún talaði við starfsmann í félagsmiðstöðinni sem á endanum bjargaði henni.
„Mér fannst þetta ekki björgun á þessum tíma. Ég fór inn í mikið sorgarferli í kjölfarið. Ég var búin að skemma fjölskylduna.“
Áslaug var ósátt við úrvinnslu móður sinnar á þessum tíma. „Ég var allt í einu orðin erfið, reið og mikið að mótmæla. Það eina sem breyttist var að pabbi var fjarlægður,“ segir hún.
Langt fram á fullorðinsár fékk Áslaug að heyra að hún væri lygasjúk. „Ég þurfti oft að ljúga sem barn til að fela kynferðisofbeldið,“ segir hún.
Áslaug tekur dæmi þar sem hún var of lengi í búðinni eða átti pening sem faðir hennar bar ábyrgð á en hún þurfti að ljúga til að fela ofbeldið. Hún segir að móðir hennar hafi beitt hana ofbeldi fyrir að hafa logið, hún gat einfaldlega ekki unnið.
Áslaug segir að sem barn hafi hún lamast, hún var tíu ára þegar hún fékk lömunarveiki, það getur gerst í kjölfar alvarlegs áfalls. Hún var á spítala í nokkra mánuði og þurfti að læra allt upp á nýtt. Á fullorðinsárum komu alls konar kvillar í ljós. Hún greindist með iktsýki sem er áfallasjúkdómur sem ræðst á frumur, liði og bein.
Eftir að Áslaug varð móðir sjálf varð hún mjög stressuð og hrædd.
„Ég var bara paranojuð. Ég var alltaf að skoða hana og athuga hvort eitthvað hafi komið fyrir hana. Það hefur alltaf verið mín stærsti ótti að eitthvað svona komi fyrir börnin mín,“ segir hún.
Þegar Áslaug fór inn í sambönd fannst henni erfitt en nauðsynlegt að segja frá sinni sögu.
„Ég leit alltaf á mig sem gallaða vöru. Það hefur orðið til þess að ég hef farið inn í óheilbrigð sambönd, bæði ástar- og vina,“ segir hún.
Upp úr tvítugt fór Áslaug að vinna sjálfsvinnu því hún vildi ekki enda reið og eins og foreldrar sínir.
Hlustaðu á þáttinn með Áslaugu á Spotify.