Íslendingar borða mikinn graflax um hátíðirnar. Yfirleitt á ristuðu brauði með sérstakri graflaxsósu. En þó að margir setji vel af sósunni á fiskinn þá klárast hún sjaldnast á undan honum.
Þá kemur upp spurningin: Hvað á að gera við graflaxsósuna þegar graflaxinn er búinn?
Á tímum þar sem umræða um matarsóun, hækkandi verðlag og umhverfisvernd er í algleymi þá hlýtur að vera hægt að gera eitthvað við graflaxsósuna annað en að henda henni í ruslið. En sósan er að mestu samsett úr sinnepi, vatni, repjuolíu, hveiti, eggjarauðum, kryddum, ediki og sitthvoru fleiru.
Um þetta hafa skapast miklar umræður á Facebook-síðunni Matartips og gefa netverjar ýmis góð ráð um hvað skal gera við sósuna. Meðal annars að borða hana…:
– Með grilluðum laxi
– Með síld
– Með reyktri bleikju
– Með öðrum fiski
– Á ristað brauð
– Á ristað brauð með osti
– Með harðsoðnum eggjum
– Með reyktum lunda
– Með rúllupylsu
– Á pylsu
– Með sviðasultu
– Dýfa laufabrauði í hana (tvær flugur í einu höggi þar)
– Út í heita brúna sósu
…….síðan er líka nefnt að þetta sé líka góð ástæða til þess að kaupa meiri graflax.