Hún fer í ræktina nánast á hverjum degi og er heilsuhraust, en skyndilega byrjaði hún að missa hárið. Henni hefði aldrei dottið í hug að það væri vegna æfinga hennar, en orsökin var óhreinn búnaður. Hillary vakti athygli á málinu á TikTok og sagðist vilja vara annað fólk við og sagði að það væri mun algengara en fólk heldur að ræktarbúnaður sé ekki þrifinn almennilega.
Hillary leitaði til læknis sem sagði hana vera með sveppasýkingu sem getur valdið kláða og útbrotum og að hún hafi líklega smitast frá óhreinum búnaði í ræktinni.
„Við stelpurnar erum alltaf að færa hárið okkar frá andlitinu eða snerta það með skítuga putta, ef búnaðurinn er óhreinn þá fara óhreinindin í hárið og hársvörðinn sem getur orsakað þetta,“ sagði Hillary.
Hún ákvað að segja sögu sína og vara aðra við, þar sem hún hafði ekki hugmynd um að þetta væri möguleiki.
„Þrífðu allan búnað vel áður en þú byrjar æfinguna,“ sagði hún.
Í flestum líkamsræktarstöðvum eru tuskur og spreybrúsar til að þrífa búnaðinn, bæði fyrir og eftir að þú notar hann.