Pistlahöfundur Daily Mail, sem gengur undir dulnefninu Nessa Henderson, er þeirrar skoðunar eins og hún rekur í pistli fyrir miðilinn.
Nessa er 39 ára og eiginmaður hennar, Ben, er 37 ára, og að hennar sögn fjallmyndarlegur og eftirsóttur hjá konum. Þegar Ben gerir sig reiðubúinn fyrir svefninn segist hún laumast í símann hans og renna í gegnum WhatsApp, smáskilaboðin og skilaboðin á Instagram og Facebook.
En hún segist ekki gera af þeirri ástæðu að hún treystir ekki eiginmanni sínum. Miklu fremur treysti hún ekki konum almennt í kringum eiginmann sinn. Og hún segist ekki vera ein um að gera þetta.
„Nýleg könnun gefur til kynna að 36% kvenna á aldrinum 36 til 44 ára sem eru í samböndum skoði símana hjá mökum sínum. Og af góðri ástæðu! Sama könnun leiddi í ljós að 11% karla segjast vera með eitthvað í símanum sem þeir vildu síður að maki þeirra myndi sjá.“
Nessa segist treysta eiginmanni sínum en ekki öðrum konum eins og fyrr segir.
„Hann er myndarlegur maður með mikla persónutöfra og á auðvelt með að láta konum líða vel með sig. Hann gerir það óvart (held ég) en er í augum kvenna fengur. Ég myndi aldrei sofa hjá kvæntum karlmanni en ég veit að það er fullt af konum sem deila ekki sömu skoðun og ég,“ segir hún.
Hún bendir einnig á að flest framhjáhöld eigi sér ekki stað í hita augnabliksins heldur byggist spennan upp hægt og rólega. „Vinalegt spjall milli tveggja einstaklinga getur verið undanfari framhjáhalds. Þannig að það er gott að vera á varðbergi gagnvart skilaboðum sem benda til þess að persónuleg tenging sé að myndast.“
Nessa og Ben hafa verið gift í fimm ár og eiga tvær dætur, tveggja og fjögurra ára. Hún starfar frá heimili sínu en hann í ónefndri breskri miðborg sem gerir það að verkum að þau sjást ekki ýkja mikið á virkum dögum. Hún bendir á að fjölskyldulífið hafi líka breyst í gegnum árin og áður fyrr hafi þau stundað kynlíf nokkrum sinnum í viku, en í dag stundi þau það kannski tvisvar í mánuði. Af þessari ástæðu sé hún einnig á varðbergi.
Eins öfugsnúið og það kann að hljóma segist Nessa ekki deila lykilorðinu að símanum sínum með Ben. „Og ég myndi aldrei skilja símann minn eftir þannig að hann gæti farið í gegnum hann. Af hverju ætti ég að gera það? Ég vinn heiman frá mér, ég er ekki með neina kollega í kringum mig á vinnustaðnum sem ég spjallað við eða vini til að hitta í hádegismat?“
Sjálf segist Nessa ekki ætla að breyta venjum sínum. Lítur hún þannig á að hún sé að „jafna leikinn“ þar sem Ben hefur miklu meiri möguleika en hún á að spila á útivelli, ef svo má segja.