Nýtt ár er gengið í garð sem þýðir að það styttist í Söngvakeppnina þar sem framlag Íslands til Eurovision verður valið. Ríkisútvarpið hefur boðað stórar breytingar á keppninni í ár.
Undanúrslitin fara fram 8. og 15. febrúar og að venju hafa tíu lög verið valin til þátttöku. Nú hefur þó verið gerðar grundvallarbreytingar á fyrirkomulaginu.
Þrjú lög komast áfram á hvoru undanúrslitakvöldi svo í úrslitum verða sex lög í staðinn fyrir fimm. Síðustu ár hafa tvö lög verið valin á hvoru undanúrslitakvöldi og það fimmta valið af RÚV sem svokallað wild card.
Eins hafa tvö efstu lögin farið í svokallað einvígi þar sem lögin eru flutt aftur og áhorfendur kjósa á milli þeirra í nýrri kosningu. Að þessu sinni verður ekkert einvígi. Þess í stað verður aðeins ein símakosning almennings sem stendur yfir allt kvöldið og gildir 50 prósent á móti atkvæðum dómnefndar, en dómnefndin hefur líka tekið breytingum og verður nú alþjóðleg og skipuð sjö erlendum aðilum.
Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar segir að þetta fyrirkomulag sé notað í forkeppni Svía og í Eurovision-keppninni sjálfri. Hann segist sannfærður um að breytingarnar eigi eftir að gera Söngvakeppnina meira spennandi.
Listrænir stjórnendur keppninnar eru þau Thomas Bensten og Selma Björnsdóttir. Söng- og leikkonuna Selmu þekkja flestir landsmenn en Thomas er leikstjóri, danshöfundur og grafískur hönnuður frá Svíþjóð sem hefur unnið sem leikstjóri í Melodifestivalen, forkeppni Svía í Eurovision.
Kynnar Söngvakeppninnar í ár verða Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson úr Hraðfréttum og svo Guðrún Dís Emilsdóttir, en öll hafa þau verið kynnar áður.
Lög og höfundar verða kynnt 17. janúar í þættinum Lögin í Söngvakeppninni á RÚV.