Ástvinir og aðdáendur kántrísöngvarans Billy Ray Cyrus hafa lýst yfir miklum áhyggjum, sérstaklega eftir að hann kom fram á tónleikum fyrir innsetningarhátíð Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Frammistaða hans, sem mörgum þótti mjög furðuleg og óþægileg, vakti mikla athygli, en hann virtist ekki alveg vera með á nótunum.
Sjá einnig: „Furðuleg“ frammistaða Billy Ray Cyrus vekur athygli – „Eins og að horfa á lestarslys“
Sonur söngvarans, Tracy Cyrus, skrifaði opið bréf til föður síns á Instagram. Tracy sagðist þar elska föður sinn. Það hafi hann alltaf gert. En hann þekki þó ekki þann mann sem hann sjái í dag. Billy Ray hafi ýtt sínum nánustu frá sér og sé greinilega að glíma við erfiðleika.
„Ég skrifa þetta til þín með tárin í augunum og vona að þú vitir að ég er að segja þetta því ég elska þig, en líka því ég er hræddur um að þú farir frá okkur of snemma,“ sagði Tracy og tók fram að hann gruni að faðir hans sé fastur í viðjum áfengis og fíknar. Tracy vonaði að faðir hans væri tilbúinn að leita sér aðstoðar.
Sjá einnig: Lýsir þungum áhyggjum af föður sínum – „Ég skrifa þetta til þín með tárin í augunum“
Tracy er ekki sá eini til að lýsa yfir áhyggjum. Fyrrverandi eiginkona hans, Firerose, segir að almenningur geti nú séð hvaða mann hún þurfti að þola í hjónabandi þeirra.
„Það er leiðinlegt að sjá hann áfram glíma við sömu erfiðleikana en ég er glöð að sannleikurinn sé að koma fram í dagsljósið – svo það geti mögulega orðið honum til góðs því eina leiðin að bata er að horfast í augu við sannleikann og gangast við því að þú eigir við vandamál að stríða.“
Billy Ray hefur nú svarað áhyggjuröddunum. Hann birti færslu á sunnudaginn þar sem hann virtist gefa til kynna nýtt upphaf.
„Sunnudagurinn kallar. Gefur þakkir fyrir rigninguna í Kaliforníu. Biður fyrir þeim sem eru brotnir og fyrir sársauka. Biður fyrir fjölskyldu minni. Fyrir börnum mínum, sonum, dætrum og móður þeirra. Leyfum þessu að vera upphafið að batanum fyrir okkur öll. „Fortíðin er ekki það sama og framtíðin“. Amen.“
Með færslunni birti hann brot úr myndbandinu við lag hans, Somebody Said a Prayer, en þar bregður Tracy fyrir. Aðdáendur telja því að færslan, þó hún sé óræð, sé eins konar svar við bréfinu.